Innlent

Hermaður fékk ekki bætur

Varnarliðið Bótakröfu hermannsins var hafnað.
Varnarliðið Bótakröfu hermannsins var hafnað.

Íslenska ríkið hefur verið sýknað í Héraðsdómi Reykjavíkur af bótakröfu bandarísks hermanns sem var við störf hjá varnarliðinu á Keflavíkurflugvelli.

Forsaga málsins er sú að árið 2005 varð hermaðurinn fyrir fólskulegri líkamsárás fyrir utan skemmtistaðinn Traffic í Reykjanesbæ. Árásarmaðurinn, venesúelskur ríkisborgari, var dæmdur í átján mánaða fangelsi fyrir árásina.

Lögmaður hermannsins fór fram á það við bótanefnd að honum yrðu greiddar skaðabætur úr ríkissjóði á grundvelli laga um greiðslu ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota vegna tjóns af völdum árásarinnar. Upphæð þeirra bóta sem krafist var nam ríflega þremur milljónum króna. Bótanefnd hafnaði kröfunni.

Hermaðurinn höfðaði mál í kjölfarið. Héraðsdómur vísaði til laga sem kveða á um að ekki skuli greiða bætur þegar bæði tjónvaldur og tjónþoli eru staddir á landinu um stundarsakir þegar brot er framið. Þar sem árásarmaðurinn var staddur hér á landi sem ferðamaður og hermaðurinn staddur tímabundið á landinu vegna vinnu sinnar, báðir erlendir ríkisborgarar, hafnaði Héraðsdómur kröfunni.- jss




Fleiri fréttir

Sjá meira


×