Viðskipti innlent

Leggja fram frumvarp svo fyrrum starfsmenn Spron fái greidd laun

Álfheiður Ingadóttir, þingmaður VG, er formaður viðskiptanefndar.
Álfheiður Ingadóttir, þingmaður VG, er formaður viðskiptanefndar. Mynd/Anton Brink
Viðskiptanefnd Alþingis hefur lagt fram frumvarp sem felur í sér breytingar á lögum um fjármálafyrirtæki. Nefndin vonar að með frumvarpinu verði hægt að greiða rúmlega 100 fyrrverandi starfsmönnum Spron laun. Starfsmennirnir hafa ekki fengið greidd laun frá mánaðarmótum vegna lagatúlkunar skiptanefndar sparisjóðsins.

Slitastjórnin tilkynnti starfsmönnum Spron 30. júní að þeir fengju ekki greidd laun í uppsagnarfresti þar sem slitastjórnin taldi sig ekki hafa lagaheimild til þess að greiða launin.

Bæði Gylfi Magnússon, viðskiptaráðherra, og Álfheiður Ingadóttir, formaður viðskiptanefndar, hafa bæði lýst yfir vilja til að greiða úr málinu.

Fram kemur í greinargerð með frumvarpinu að viðskiptanefnd hafi leitað álits hjá viðskiptaráðuneytinu og réttarfarsnefnd og það hafi verið samdóma mat þessara aðila að heimildir skorti ekki svo framarlega sem fullnægt væri þeim skilyrðum að slitastjórn viðurkenndi kröfurnar fyrir sitt leyti og teldi víst að félagið ætti nægar eignir til að standa sömu hlutfallsleg skil á öllum forgangskröfum sem gætu notið sömu eða hærri stöðu í skuldaröð. Slitastjórnin hefur ekki fallist á þessa niðurstöðu stjórnvalda

„Í ljósi þess óhagræðis og tjóns sem þessi staða hefur þegar valdið ríflega 100 fyrrverandi starfsmönnum SPRON og til þess að komast hjá frekara tjóni sem málshöfðun hefur í för með sér með tilheyrandi drætti á greiðslu þessara launakrafna fyrrverandi starfsmanna telur nefndin ekki annað fært en að treysta þær heimildir sem slitastjórnin hefur samkvæmt framangreindu áliti, í þeirri von að hún muni nú nýta þær, og flytur því frumvarp þetta," segir í greinargerðinni.


Tengdar fréttir

Fær engar upplýsingar um viðbótarlífeyrissparnað sinn

Halldóra Jóna Lárusdóttir, fyrrum viðskiptavinur Spron, fékk sent bréf frá lífeyrissparnaði Spron sem segir að viðbótariðgjöld í lífeyrissparnað bankans hafi ekki verið greidd. Þegar hún athugaði málið og vildi forvitnast um stöðu sjóðsins fékk hún engin svör. Eins og kunnugt er, heyrir Spron nú undir Fjármálaeftirlitið en flestir fyrrum viðskiptavinir Spron hafa verið fluttir yfir til Kaupþings.

SPRON hunsar álit réttarfars-nefndarinnar

Slitastjórn SPRON er heimilt að greiða ógreidd laun rúmlega 100 starfsmanna SPRON á uppsagnarfresti, samkvæmt áliti réttarfarsnefndar. Ekki sé lagabreytinga þörf, eins og slitastjórnin telur.

Fjölmargir fyrrum starfsmenn SPRON óttast um hag sinn

Fjölmargir fyrrverandi starfsmenn SPRON óttast nú um sinn hag þar sem slitastjórn bankans neitar að greiða þeim laun í uppsagnarfresti. Fólkið á ekki rétt á atvinnuleysisbótum og talsmaður hópsins segir margir muni lenda í verulegum vandræðum um næstu mánaðamót.

Hafa heimild til útborgunar

„Það er skilningur minn að slitastjórnin hafi fulla heimild til að greiða út laun," segir Gylfi Magnússon. Um 100 starfsmenn SPRON fengu ekki greidd laun 1. júlí. Taldi slitastjórn að ekki væri hægt að greiða út laun þar sem fyrirtækið hefði aldrei farið í greiðslustöðvun.

Starfsmenn SPRON eru utan kerfisins

Þeir rúmlega 100 starfsmenn SPRON á uppsagnarfresti sem ekki fengu greidd laun 1. júlí síðastliðinn eiga hvorki rétt á atvinnuleysisbótum né greiðslu úr Ábyrgðarsjóði launa.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×