Viðskipti innlent

Vaxtamálið: Niður­staða um verð­tryggðu lánin á morgun

Árni Sæberg skrifar
Benedikt Gíslason er bankastjóri Arion banka.
Benedikt Gíslason er bankastjóri Arion banka. Vísir/Vilhelm

Hæstiréttur kveður upp dóm sinn í máli tveggja lántakenda á hendur Arion banka, vegna skilmála í lánasamningi um verðtryggt lán á breytilegum vöxtum, á morgun.

Á vef Hæstaréttar segir að dómar í fjórum málum verði kveðnir upp klukkan 14 á morgun. Þeirra á meðal er annað vaxtamálanna svokölluðu, sem Hæstiréttur kveður upp dóm í.

Ýmsum spurningum ósvarað 

Dómur Hæstaréttar í fyrsta málinu, máli lántakenda á hendur Íslandsbanka, hefur haft gríðarleg áhrif á lánamarkað síðan hann var kveðinn upp þann 14. október síðastliðinn.

Skilmálarnir sem dæmdir voru ólöglegir með dómi Hæstaréttar voru í lánasamningi um óverðtryggt lán á breytilegum vöxtum og fólu í sér heimild til handa bankanum til að breyta vöxtum miðað við hina ýmsu áhrifaþætti. Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu að aðeins mætti breyta vöxtunum í takti við breytingar á stýrivöxtum.

Ljóst er að dómurinn leysir ekki úr öllum álitamálum sem uppi eru, til að mynda vegna þess að verðtryggð lán verða ekki bundin stýrivöxtum sökum eðlis þeirra.

Í tilkynningu Arion banka skömmu eftir uppkvaðningu Hæstaréttar í máli Íslandsbanka sagði að skilmálar íbúðalána bankans með breytilega vexti væru ólíkir þeim sem voru dæmdir ólögmætir í máli Íslandsbanka. Óháð því myndi dómstólinn síðar taka fyrir mál sem sneri að láni Arion banka með breytilegum verðtryggðum vöxtum. Landsréttur hefði dæmt bankanum í vil í febrúar en óvissa ríkti um lögmæti vaxtabreytingarskilmála verðtryggðra lána á meðan beðið væri niðurstöðu Hæstaréttar í málinu gegn Arion.

Fimm dögum á undan áætlun

Úr því álitamáli verður leyst á morgun þegar Hæstiréttur kveður upp dóm í máli lántakenda á hendur Arion banka. 

Málflutningur í málinu fór fram mánudaginn 17. nóvember síðastliðinn en samkvæmt lögum um meðferð einkamála skal kveða upp dóm eigi síðar en fjórum vikum eftir málflutning, ellegar skuli flytja mál á ný. Hæstiréttur er því fimm dögum á undan áætlun með því að kveða upp dóm sinn á morgun.

Alls voru fjögur vaxtamál höfðuð af lántakendum með fulltingi Neytendasamtakanna. Því eru tvö mál eftir. Málflutningur í þeim fór fram annars vegar 3. desember og hins vegar í gær. Haldi Hæstiréttur sig við fjögurra vikna regluna í þeim má reikna með dómum ekki seinna en á gamlársdag og 5. janúar.

Þess má þó geta að mál Íslandsbanka á hendur Neytendastofu, til ógildingar ákvörðunar um að bankinn hefði brotið gegn lögum um neytendalán með ófullnægjandi upplýsingagjöf á stöðluðu eyðublaði til neytenda, er ekki enn komið á dagskrá Hæstaréttar.


Tengdar fréttir

Viðbrögð bankanna eftir vaxta­málið von­brigði

Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna, segir það vonbrigði að bankar skáki í skjóli dómsins og hækki vexti sína og þrengi lánaskilmála. Hann segir ekkert í dómi hæstaréttar sem segi til um að bankarnir þurfi þess.

Gera ráð fyrir svipuðum hagvexti og í Covid

Lánskjör heimilanna hafa versnað verulega vegna vaxtamálsins svokallaða að sögn Seðlabankastjóra. Peningastefnunefnd hafi því ákveðið að lækka stýrivexti þrátt fyrir þráláta verðbólgu. Áhrif áfalla sem dunið hafa á hagkerfinu undanfarið eigi hins vegar eftir að koma í ljós. Hagvaxtarspá fyrir næsta ár hafi versnað verulega og sé svipuð og í Covid.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×