Innlent

Ný útlánastofnun á Íslandi

Hafsteinn Gunnar Hauksson skrifar
Ragnheiður H. Magnúsdóttir, framleiðsluverkfræðingur og frumkvöðull.
Ragnheiður H. Magnúsdóttir, framleiðsluverkfræðingur og frumkvöðull.

Nýja útlánastofnunin Uppspretta kemur til með að taka til starfa á landinu þegar hausta tekur. Hér er þó ekki um að ræða hefðbundinn banka, heldur svokallaða örlánamiðlun að asískri fyrirmynd.

Bangladesjinn Muhammad Yunus hlaut friðarverðlaun Nóbels árið 2006 fyrir örlánastarfsemi sína, sem gekk út á að venjulegt fólk gat lánað fátækum, einkum konum, lágar upphæðir til að koma á fót rekstri og vinna sig út úr fátækt.

Ragnheiður H. Magnúsdóttir, einn aðstandenda Uppsprettu, segir slíka örlánastarfsemi nú hafa færst frá því að vera þróunaraðstoð og í að vera hefðbundin lán milli fólks.

„Við tókum eftir því að í þessu ástandi á Íslandi vantar fjármagn, sérstaklega fyrir fólk og fyrirtæki sem er að skapa eitthvað nýtt," segir Ragnheiður í samtali við fréttastofu.

Því hafi hún um síðustu áramót ákveðið, ásamt tveimur öðrum frumkvöðlum, að koma á fót örlánamiðlun, sem hafa mun aðsetur á heimasíðunni uppspretta.is.

Ekki bara gróði

Þar munu frumkvöðlar geta listað nákvæmlega út hugmyndir sínar að rekstri, auk lánsupphæðar sem verkefnið krefst, lánstíma og hámarksvexti.

„Þá koma lánveitendur og skoða hugmyndirnar. Ef mér sem lánveitanda líst vel á hugmynd get ég ákveðið að taka þátt í hugmyndinni og lánað viðkomandi," segir Ragnheiður.

Hún segir lánin geta verið allt frá 2.500 krónum og upp úr. Þannig eigi allir að geta lánað, þó þeir hafi ekki mikið á milli handanna sjálfir, og margir lánveitendur séu á bak við hvert lán.

„Við hugsum þetta þannig að hver sem er geti komið og styrkt góða hugmynd. Þetta snýst ekki bara um að græða, heldur líka að gera gott fyrir samfélagið," segir Ragnheiður, sem hefur enga trú á öðru en að lánveitendur komi til með að taka þátt í framtakinu.

Lánveitendurnir fái svo alla ávöxtun, en Uppspretta þiggi einungis þjónustugjald fyrir hvern gerðan samning.

Hún segir aðspurð að þar sem ekki er um eiginlegan banka að ræða, heldur lánamiðlun, hafi regluverk bankakerfisins lítið vafist fyrir verkefninu.

Netvarpið tók viðtal við Ragnheiði, þar sem hún segir frá hugmyndinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×