Skoðun

Seðlabanki Íslands heldur þversögninni áfram

Valdimar Ármann skrifar um stýrivexti

Seðlabanki Íslands er samur við sig og heldur áfram hávaxtastefnu sinni og þversögnum. Engin viðleitni er sýnd til að koma Íslandi í gang aftur eða skilja önnur sjónarmið. Margir hafa stigið fram og rökstutt það að lægri vextir myndu auka trúverðug­leika Íslands, losa um innlent fjármagn sem mun leita í arðbær verkefni og að lokum þess vegna styðja við gengi krónunnar.

Tvenns konar stýrivextirStýrivöxtum var haldið óbreyttum í 12% og innlánsvöxtum í 9,5%. Seðlabankastjóri reyndi að rökstyðja að í rauninni væru stýrivextir ekki 12% heldur 9,5% sem eru innlánsvextir innlánsstofnana hjá Seðlabankanum. Rökin fyrir því að færa ekki stýrivexti einfaldlega niður í 9,5% voru þau að þá myndu aðilar (og þá sérstaklega erlendir aðilar) telja að Seðlabankinn væri að veita peningalegan slaka. Það lítur því út fyrir að Seðlabanki Íslands sé með tvenns konar stýrivexti, 9,5% sem íslenskir aðilar eiga að horfa á og 12% sem erlendir aðilar (les. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn) eiga að horfa á. Þetta er miður trúverðugt og í rauninni frekar hjákátlegt og stórlega vegið að sjálfstæði Seðlabankans með þessu. Enn hærri vextir í boðiAthygli hefur vakið og oft verið minnst á, að íslensku bankarnir eru „stútfullir“ af peningum; þeir eru með um 1.880 ma í innlánum og af því eru um 10% í innlánum hjá Seðlabankanum. Nú ætlar Seðlabankinn að gefa út innstæðubréf til að draga úr lausu fé í umferð. Bréfin eru gefin út til 28 daga og mega innlánsstofnanir bjóða 9,5% til 10% vexti í 15-25 ma í hverri viku (s.s. 60-100 ma í mánuði). Skilaboðin eru því þau að frekar en að hvetja bankana til að lána þessa peninga út í hagkerfið til fyrirtækja eða almennings til að koma hjólum efnahagslífsins í gang þá er bönkunum boðið uppá enn hærri vexti en áður, einmitt með það að markmiði að koma í veg fyrir útlán banka. Er líklegt að bankarnir hækki innlánsvexti sína þar sem þeir geta fengið svo háa vexti hjá Seðlabankanum? Nei, það er ólíklegt – þar sem þeir þurfa að hækka vexti á 1.880 ma en fá hærri vexti á einungis 60-100 ma þá stinga þeir vaxtamuninum frekar í vasann í boði skattgreiðenda. „Óþolinmóðu“ fjármagni mútað

Rökin fyrir háum vöxtum eru enn á þá leið að styðja þurfi við gengi krónunnar þrátt fyrir gjaldeyrishöft. Seðlabanki Íslands telur að mikið af „óþolinmóðu“ fjármagni sé enn á Íslandi sem muni leita í erlendan gjaldeyri við fyrsta (löglega eða ólöglega) tækifæri. Því þurfi að borga (sumir segja verðlauna eða múta) þessum fjármagnseigendum fyrir að vera í íslenskum krónum. Seðlabankinn er ekki að átta sig á því að með því að borga háa vexti á þessar fjárhæðir er í raun verið að stækka hratt „óþolinmóða“ fjármagnið. Er líklegt að þessir „óþolinmóðu“ aðilar sjái að sér eftir 1-2 ár þegar reynt verður að losa gjaldeyrishöftin og hætti þá við að skipta í erlendan gjaldeyri? Nei, það er ólíklegt – en eftir 1-2 ár er búið að stækka „óþolinmóða“ fjármagnið um 8-20% með himinháum vaxtagreiðslum í boði íslenskra skattgreiðenda.

Nýr Seðlabankastjóri virðist ekki ætla að nota gullið tækifæri til að endurskoða peningastefnuna frá grunni. Er það miður.

Höfundur er hagfræðingur hjá GAM Management hf.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.