Innlent

Enn slæmt aðgengi að Egilshöll

Foreldrar barna sem æfa íþróttir í Egilshöll óttast að þau slasi sig á leið inn í húsið þar sem aðgengi er slæmt. Það hefur staðið til að laga það í nokkra mánuði en enn gerist ekkert.

Í fréttum okkar í nóvember sögðum við frá slæmu aðgengi að Egilshöll. Foreldrar barna sem þar æfa hafa áhyggjur af því að börnin slasi þig þegar þau hlaupa langan grýttan og lítið upplýstan stíg til að komast inn í húsið á æfingar. Nú þremur mánuðum seinna er aðgengið enn slæmt. Nokkur hundruð börn mæta á íþróttaæfingar í húsinu á hverjum degi og hafa foreldrar nokkurra barna haft samband við fréttastofu undanfarið og lýst yfir áhyggjum sínum. Þeir eru þeir ósáttir að enn hafi ekkert verið gert til að bæta aðgengið og auka öryggi barnanna.

Fyrirtækið Nýsir hefur frá því síðasta vor unnið að stækkun Egilshallar. Framkvæmdir hafa að mestu legið niðri frá því í október.

Þegar fréttastofa hafði samband við Harald Lyngdal Haraldsson, framkvæmdastjóra Egilshallar, í nóvember sagði hann að reynt yrði að laga aðgengi að húsinu á næstu dögum. Hann sagði efnahagsástandið ástæðu þess að framkvæmdir hefðu legið niðri og ekki hefði verið gengið frá aðkomu að húsinu. Þessu yrði breytt sem fyrst.

Þegar fréttastofa náði tali af Haraldi í dag sagði hann miður að enn hafi ekki náðst að laga aðgengi að húsinu. Ástandið í þjóðfélaginu hefði ekki gert þeim auðveldara fyrir að koma því í betra horf. Nýsir eigi í viðræðum við Reykjavíkurborg og Landsbankann sem fjármagnaði framkvæmdirnar. Hann vonast til að málin fari að skýrast á næstu dögum og að þá verði hægt að laga aðkomuna að húsinu.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×