Erlent

Persónuleiki ræður meiru við starfsval en menntun

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Vinnudagurinn.
Vinnudagurinn.

Hvort er yfirmaðurinn of harður eða starfsfólkið hreinlega bara latt? Ný áströlsk könnun veltir upp athyglisverðum punktum um vinnu og val á starfi.

Það voru félagsvísindamenn við Háskólann í Vestur-Sydney sem könnuðu hvað býr að baki starfsvali, vinnupersónuleika og öðrum merkilegum vinnutengdum hlutum. Meðal þess sem könnun þeirra leiddi í ljós var að persónuleiki fólks ræður ótrúlega miklu um hvaða starfi það velst til að gegna ásamt þáttum á borð við erfðir og uppeldi.

Þessir þættir hafa til dæmis mun meira að segja en menntun og fyrri reynsla á vinnumarkaði, segja aðstandendur könnunarinnar en einn þeirra er Robert Wells sem notaði þessa tilteknu könnun í hluta af doktorsritgerð sinni. Wells segir það nokkuð ljóst þegar við 12 ára aldur hvaða starfssvið fólk muni velja sér þegar það vex úr grasi. Hann segir mögulegt að draga fólk í dilka og velja því stöður eftir persónu. Þannig sé fólk í stjórnunarstöðum gjarnan tilbúnara en aðrir til að prófa nýja hluti auk þess sem því hætti til að vera sjaldan sammála öðru fólki.

Afgreiðslufólk er afskaplega meðvitað en jafnframt opið fyrir reynslu en sölufólk á auðveldast með að vera sammála og samþykkja rök annarra. Könnunin náði til 20.000 manns á vinnumarkaði og skipti þeim í fimm grunnflokka. Upplýsingarnar eiga svo að koma að gagni við stefnumótun og mannaráðningar framtíðarinnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×