Erlent

Gömlu ævintýrin allt of blóðug

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Mjallhvít og dvergarnir sjö. Kynþáttastefna og skortur á pólitískri rétthugsun eða bara gamalt ævintýri? Dæmi hver fyrir sig.
Mjallhvít og dvergarnir sjö. Kynþáttastefna og skortur á pólitískri rétthugsun eða bara gamalt ævintýri? Dæmi hver fyrir sig.

Sígild ævintýri eru að mati breskra foreldra allt of hrottafengin til að lesa þau fyrir börn auk þess sem þau þykja ekki í takt við pólitíska rétthugsun.

Sextíu og fimm prósentum breskra foreldra þykja gömlu góðu ævintýrin einfaldlega blóði drifinn hryllingur sem geri ekki annað en vekja martraðir með börnum þeirra. Þetta kemur fram í könnun sem náði til 3.000 foreldra þar í landi.

Að úlfur éti gamla konu, systkinum sé leyft að fara einum út í skóg þar sem mannætunorn er búsett og eitri sé komið ofan í fólk með epli þykir hreinlega ekki ná nokkurri átt. Einn faðirinn lét þess getið að hann teldi að banna ætti ævintýrin innan fimm ára.

Foreldrarnir virðast almennt óttast að börnum þyki hegðun sögupersónanna til eftirbreytni, eitthvað sem enginn virðist þó hafa hugsað út í fyrir 20 árum.

Þá fór skortur á svokallaðri pólitískri rétthugsun fyrir brjóstið á sumum, til dæmis að dvergarnir sjö séu kallaðir dvergar eins og ekkert sé, öll helstu kvenréttindi séu þverbrotin á Öskubusku og síðast en ekki síst sé það ekkert annað en ódulin kynþáttastefna að manneskja heiti Mjallhvít.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×