Erlent

Nýútskrifaðir Bandaríkjamenn leita í opinber störf

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Skilti á lofti í mótmælum á Wall Street fyrr í vor.
Skilti á lofti í mótmælum á Wall Street fyrr í vor. MYND/Reuters

Nýútskrifað háskólafólk í Bandaríkjunum leitar nú fyrst og fremst að störfum hjá hinu opinbera, ólíkt því sem áður var.

Það er af sem áður var, bankar og fjármálafyrirtæki freista nýútskrifaðra háskólaborgara í Bandaríkjunum lítið eins og nú er komið. Þeir sem nú eru að útskrifast eiga margir hverjir eldri systkini sem lentu í punktur com-hruninu, það er að segja ástandinu sem skapaðist þegar netbólan sprakk og hugbúnaðarfyrirtæki riðuðu til falls í þúsundavís, og nú lendir þessi kynslóð í bankahruninu.

Það er ókræsilegt að vera á leið út á bandarískan vinnumarkað af skólabekknum núna. Atvinnuleysi í Bandaríkjunum er 9,4 prósent og samkeppnin við eldra og reyndara fólk á vinnumarkaðnum er hörð. Samtök háskóla og vinnuveitenda í Bandaríkjunum segja samdrátt í nýráðningum þeirra sem nýlega hafa lokið námi nema tæpum 22 prósentum og munar þar langmestu um fjármálageirann.

Nánast eini staðurinn í Bandaríkjunum þar sem verið er að skapa ný störf er höfuðborgin Washington en hið opinbera ræður nú af kappi mannskap til að hafa eftirlit með aðstoð ríkisins við ýmis fyrirtæki vegna fjármálahrunsins auk alls konar afleiddra starfa í tengslum við þetta. Þetta er helsta von nýútskrifaðs skólafólks um þessar mundir og flykkist það til Washington til að komast í vinnu hjá ríkinu. Aðdráttarafl bankanna er hins vegar horfið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×