Erlent

Tillögur um mikinn samdrátt

Claudia Roth, leiðtogi þýskra Græningja, og Jakob Norhoj frá Sósíalíska þjóðarflokknum í Danmörku, setja björgunarhring utan um jarðarlíkan fyrir utan danska þjóðþingið.fréttablaðið/AP
Claudia Roth, leiðtogi þýskra Græningja, og Jakob Norhoj frá Sósíalíska þjóðarflokknum í Danmörku, setja björgunarhring utan um jarðarlíkan fyrir utan danska þjóðþingið.fréttablaðið/AP

Ríki heims verða helst að hætta alveg losun gróðurhúsalofttegunda, eða að minnsta kosti að minnka losunina um helming fyrir árið 2050, samkvæmt drögum að samkomulagstexta sem dreift var á loftslagsráðstefnunni í Kaupmannahöfn í gær.

Samkvæmt drögunum verða auðugri ríki veraldar að taka á sig mun meiri samdrátt, um 25 til 40 prósent fyrir árið 2020 frá því sem losunin var árið 1990. Verði niðurstaða ráðstefnunnar á þessum nótum er gengið töluvert lengra en ríki heims hafa til þessa gefið fyrir­heit um. Þó tók Evrópusambandið í gær af skarið og hét því að draga úr losun um þrjátíu prósent fyrir árið 2020, en þó því aðeins að önnur auðug ríki gerðu slíkt hið sama.

Engar ákveðnar tölur eru þó nefndar í drögunum um skiptingu kostnaðar milli ríkjanna, sem er eitt helsta deilumál ráðstefnunnar. Samkomulagið, sem vonir standa til að verði að veruleika áður en ráðstefnunni lýkur í næstu viku, hefur verið í smíðum í tvö ár. Í drögunum, sem eru sex blaðsíður, eru saman komin meginatriði þeirra tillagna sem verið hafa í umræðunni.- gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×