Innlent

Sjálfstæðismenn mótmæla harðlega verklagi vegna Icesave

Alþingi. Mynd úr safni.
Alþingi. Mynd úr safni.

Sjálfstæðismenn í fjárlaganefnd mótmæla harðlega því verklagi sem viðhaft er við yfirferð Icesavefrumvarpsins samkvæmt bókun sem þeir gerðu í fjárlaganefnd.

Í bókunni segir meðal annars að mjög mikilvæg gögn hafi verið að berast nefndinni fram á síðustu stundu - mitt í jólaönnum þingsins - og engin efnisleg meðferð hafi farið fram um þau.

Þá segir ennfremur:

„Gert var samkomulag milli forseta og formanna stjórnarandstöðuflokkanna um meðferð málsins milli umræðna. Í því samkomulagi fólst að aflað yrði ákveðinna gagna. Nú hefur meirihluti fjárlaganefndar ákveðið að taka málið út úr nefndinni án þess að viðeigandi gögn, m.a. frá IFS, hafi borist. Að mati fulltrúa sjálfstæðisflokksins er hér um að ræða svik við það samkomulag sem gert var.

Hér á Alþingi hafa farið fram stöðugar umræður og atkvæðagreiðslur um grundvallarbreytingar á skattkerfi landsmanna auk fjárlagafrumvarps næsta árs, fyrir utan önnur viðfangsefni. Ofan í þetta er fulltrúum í fjárlaganefnd ætlað að taka afstöðu til þessa gríðarlega mikla hagsmunamáls sem Icesave málið er. Það er útilokað fyrir alþingismenn í þessum önnum að kynna sér til hlítar þessi gögn sem lögð hafa verið fram og því síður tækifæri til umræðu um efnislega meðferð og afgreiðslu. Engin efnisleg rök hafa verið færð fram um það að nauðsynlegt sé að ljúka málinu nú. Að mati sjálfstæðismanna í fjárlaganefnd er ábyrgðarlaust að halda svona á hagsmunum Íslendinga í nútíð og framtíð og vísa ábyrgð á þessari málsmeðferð á hendur ríkisstjórn og meirihluta fjárlaganefndar."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×