Innlent

Krabbameinslyf kláruðust á Landspítalanum

Björn Zoëga forstjóri Landspítalans.
Björn Zoëga forstjóri Landspítalans. MYND/Pjetur
Björn Zoëga forstjóri Landspítalans segir það gerast af og til að seinkun verði á flutningum á lyfjum milli landa sem geri það að verkum að ekki séu til lyf fyrir sjúklinga. Aðstandandi manns sem er í krabbameinsmeðferð á spítalanum hafði samband við fréttastofu og undraðist að ekki hefði verið hægt að gefa honum lyf í gær. Maðurinn fékk engar skýringar á hversvegna lyfin væru ekki til né hvenær von væri á þeim. Ekki alvarlegt vandamál segir Björn.

„Við höfum lent í töfum á innflutningi á lyfjum en það hefur ekkert endilega verið meira á síðustu vikum. Þegar nóg var til af peningum gátu alveg komið upp svona tilvik," segir Björn.

Aðspurður um ástæður þess að maðurinn var ekki látinn vita hvenær lyfið kæmi aftur segir Björn eðlilegar skýringar á því. „Nú þekki ég ekki þetta mál en það sem ég tel líklegast er að fólkið sem vinnur við að gefa þessi lyf hefur ekki upplýsingar um það. Í þessu má segja að fæst orð beri minnsta ábyrgð."

Björn segir að gjöf krabbameinslyfja hafi ákveðinn tímaramma sem oft geti hlaupið á tveimur vikum. Hann segir flutning á lyfjum milli landa vera flókið kerfi en reynt sé að passa upp á að svona staða komi ekki upp.

„Þetta er ekkert nýtt en gæti alveg aukist. Hér á landi eru auðvitað innflytjendur á lyfjum sem við eigum í viðskiptum við og ég veit ekkert hvernig þeir standa. Hingað til hafa þeir hinsvegar verið að standa sig mjög vel og við höfum átt í ágætu samstarfi við þá."

Björn segir að frá því að kreppan skall á hafi Heilbrigðisráðuneytið lagt mikla áherslu á að lyf komist til landsins. Meðal annars hafi verið sérstakur aðili í Seðlabankanum sem sá um þessi mál fyrstu dagana eftir að bankarnir hrundu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×