Erlent

Ohio notar eitt lyf við aftöku - fyrst ríkja

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Glittir í mótmælaspjald við brottflutning líks Brios, nafnið er manneskjunnar sem hann varð að bana.
Glittir í mótmælaspjald við brottflutning líks Brios, nafnið er manneskjunnar sem hann varð að bana.

Ohio varð í gær fyrsta ríki Bandaríkjanna til þess að taka dauðadæmdan mann af lífi með því að nota aðeins eitt lyf.

Það var Kenneth Brios, dæmdur morðingi, sem var úrskurðaður látinn rétt fyrir hádegi í gær að bandarískum tíma. Hann var fyrsti fanginn sem Bandaríkjamenn lífláta með lyfjagjöf og nota til þess aðeins eitt lyf, þíópental sódíum, í stað blöndu þriggja lyfja sem hin 35 dauðarefsingarríkin nota enn þá. Nýja aðferðin er tekin upp í kjölfar vandræða sem upp komu með fangann Romell Broom í sumar en aftöku hans var að lokum frestað eftir að aftökusveitinni tókst engan veginn að finna nægilega burðuga æð í handlegg hans til að sprauta hinum hefðbundnu þremur lyfjum í.

Lögfræðingar Brios mótmæltu aftökunni í gær harðlega og sögðu að líkja mætti henni við tilraunir á fólki og bæri yfirvöldum að reyna lyfið og aðferðina til hlítar áður en beitt væri við aftöku. Deborah Denno, sérfræðingur í aftökuaðferðum við Fordham-háskólann í New York, sagði nýju aðferðina boða gott. Lyf númer tvö í röðinni af hinum hefðbundnu þremur ylli hinum dauðadæmda jafnan miklum óþægindum svo nýja aðferðin væri mannúðlegri. Systir fórnarlambs Brios, sem var viðstödd aftökuna í gær, sagði hins vegar að hann hefði farið allt of mjúklega yfir móðuna miklu svo sínum augum lítur hver silfrið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×