Innlent

Snittur í stað bólusetningar

Lóa Pind Aldísardóttir skrifar
Utanríkisráðuenytið eyðir mestu í veisluhöld.
Utanríkisráðuenytið eyðir mestu í veisluhöld.

Bólusetja mætti 80 prósent tólf ára stúlkna á Íslandi við leghálskrabbameini fyrir það fé sem ráðuneytin hafa varið í veitingar á þessu ári.

Nú er niðurskurður á næstum öllum vígstöðvum. Heimilin spara rétt eins og hið opinbera, veitingar og veislur eru meðal þess sem hagsýnir landsmenn skera við trog. Því kallaði fréttastofa eftir upplýsingum frá öllum ráðuneytum um veitinga- og veislukostnað það sem af er ári.

Þrjú ráðuneyti skera sig úr, félagsmálaráðuneytið hefur minnstu eytt, samgönguráðuneytið aðeins meira og þá viðskiptaráðuneytið. Fjármálaráðuneytið er í fjórða sæti með eina og hálfa milljón.

Umhverfisráðuneytið er næst með 2,3 milljónir, þá menntamálaráðuneytið með 2,7 - en taka má fram að þar hefur veitingakostnaður snardregist saman á milli ára.

Í sjöunda sæti er forsætisráðuneytið - sem hefur skorið risnu og ferðir niður um helming það sem af er ári, þá ráðuneyti heilbrigðismála, síðan dómsmála með hátt í fimm milljónir - en fjórðungur af því er vegna norræns ráðherrafundar í sumar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið hefur eytt 7,6 milljónum - en yfir helmingurinn af því er vegna norræns ráðherrafundar í sumar, og iðnaðarráðuneyti með 8,8 milljónir.

Og loks er það utanríkisráðuneytið sem eyðir langmestu í veitingar, móttökur, fundi og ráðstefnur, tilefnin eru 300, reikningurinn er 14,4 milljónir króna.

Samanlagt, um 51 og hálf milljón. Ófært yrði líklega að skera niður allan veitingakostnað hjá ráðuneytunum. En til að átta sig á upphæðunum, má benda á það myndi kosta ríkissjóð um 65 milljónir króna að bólusetja allar tólf ára stúlkur gegn leghálskrabbameini. Sóttvarnarráð hefur mælt með því og talið er að bólusetning gæti komið í veg fyrir tvö dauðsföll árlega.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×