Erlent

Fjármálageirinn hefur tapað ljómanum

Kristín María Birgisdóttir skrifar
Bankar og fjármálafyrirtæki hafa tapað ljómanum í augum nýútskrifaðra háskólanema í Bandaríkjunum. Eftir að efnahagskreppan skall á leita þeir í auknum mæli í störf hjá hinu opinbera.

Bankar og fjármálafyrirtæki vestanhafs hafa ekki lengur sama aðdráttarafl á nýútskrifaða nemendur í Bandaríkjunum og áður. Sú tíð er liðin þegar stúdentar gátu gengið að því vísu að komast að hjá fjármálafyrirtækjum við Wall Street. Þótti það vinsælt enda há laun í boði og veglegir bónusar.

Nú leita nemendur á nýjar slóðir og er höfuðborgin Washington nánast eini staðurinn í Bandaríkjunum þar sem verið er að skapa ný störf en hið opinbera ræður nú af kappi mannskap til að hafa eftirlit með ýmsum fyrirtækjum vegna fjármálahrunsins.

Atvinnuleysi í Bandaríkjunum er 9,4% og samkeppnin við eldra og reyndara fólk á vinnumarkaðnum hörð. Samtök háskóla og vinnuveitenda í Bandaríkjunum segja samdrátt í nýráðningum þeirra sem nýlega hafa lokið námi nema tæpum 22% og munar þar langmestu um fjármálageirann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×