Innlent

Gunnar Birgisson stefnir flokksbróður sínum

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Gunnar Birgisson hefur stefnt flokksbróður sínum í Kópavogi. Mynd/ Vilhelm.
Gunnar Birgisson hefur stefnt flokksbróður sínum í Kópavogi. Mynd/ Vilhelm.
Gunnar Birgisson, fyrrverandi alþingismaður og bæjarstjóri í Kópavogi, hefur ákveðið að stefna Þórarni Ævarssyni flokksbróður sínum og íbúa á Kársnesi.

Þórarinn segist hafa fengið stefnuna senda á föstudag fyrir viku. Áður hafi lögfræðingur Gunnars sent sér bréf þar sem kom fram að hægt væri að ná sátt í málinu ef Þórarinn greiddi Gunnari eina milljón í bætur og bæðist afsökunar á ummælum sínum. „Það kom náttúrlega ekki til greina," segir Þórarinn í samtali við Vísi.

Þórarinn, sem er íbúi á Kársnesi, segir að forsaga málsins sé sú að hann hafi farið fyrir mótmælum árið 2007 vegna fyrirhugaðrar stækkunar á hafnarsvæði og stækkunar byggðar á Kársnesi. Það hafi verið stofnuð ansi mikil samtök gegn þessum áformum sem hafi leitt til þess að plönin fóru í salt.

„Við vorum þarna að kýta við hvorn annan og höfum verið að gera það síðan. Nema hvað ég er flokksbundinn sjálfstæðismaður og það er náttúrlega ennþá erfiðara fyrir hann af því að þá getur hann ekki klínt því á mig að þetta séu einhver pólitísk samsæri Samfylkingarinnar eða einhverra annarra," segir Þórarinn.

Þórarinn segir að þeir Gunnar hafi síðan átt í ritdeilum. Hann hafi síðan skrifað grein í Morgunblaðið í byrjun júní í sumar þar sem hann hafi skrifað sem sjálfstæðismaður en ekki sem íbúi Kársness. Þetta hafi verið á þeim tíma þar sem umræðan um Lífeyrissjóð starfsmanna Kópavogsbæjar og verktakasamning Kópavogsbæjar við dóttur Gunnars hafi staðið sem hæst. Í greininni hafi Þórarinn skorað á Gunnar að stíga til hliðar. „Ég notaði ansi kjarnyrta íslensku í þessari grein og hann er að stefna mér í kjölfarið á henni," segir Þórarinn.

Gunnar Birgisson vildi ekki tjá sig um málið við Vísi þegar leitað var viðbragða hans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×