Innlent

Þrjár alvarlegar líkamsárásir í nótt

Lögreglan var þrívegis kölluð út vegna líkamsárása á höfuðborgarsvæðinu í nótt. Sú fyrst átti sér stað fyrir utan skemmtistaðinn Spot í Kópavogi. Þar gekk karlmaður í skrokk á konu sinni. Lögreglan var kvödd á staðinn sem skarst í leikinn. Konan var í kjölfarið færð á spítala þar sem gert var að sárum hennar.

Síðar um nóttina fékk lögreglan tilkynningu um átök á Skólavörðustígnum í miðborg Reykjavíkur. Kom í ljós að þar hafði karlmaður verið sleginn í rot. Talið er að fjórir menn hafi veist að honum og hlaut hann umtalsverða áverka af árásinni. Hann var færður á spítala en árásarmannanna er leitað.

Þriðja líkamsárásin átti sér stað á Bankastræti en þar var maður sleginn með flösku í höfuðið. Maðurinn missti meðvitund af högginu enda um lífshættulega árás að ræða. Lögreglan segir að brotamaðurinn hafi komist undan og hans sé nú leitað. Fórnalambið var flutt á spítala og er gert ráð fyrir að hann nái sér.

Þokkalegur erill var í bænum í gærkvöldi og nótt. Auk líkamsárása voru fjórir ökumenn teknir fyrir að aka undir áhrifum áfengis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×