Innlent

Fatlaðir nemar borgi í strætó

Jórunn Frímannsdóttir formaður velferðarráðs þar sem samþykkt var að byrja aftur að innheimta gjald af fötluðu skólafólki fyrir ferðir með strætisvögnum.Fréttablaðið/GVA
Jórunn Frímannsdóttir formaður velferðarráðs þar sem samþykkt var að byrja aftur að innheimta gjald af fötluðu skólafólki fyrir ferðir með strætisvögnum.Fréttablaðið/GVA

Reykjavíkurborg hefur ákveðið að fatlaðir nemendur fái ekki lengur frítt í strætó. Í greinargerð sem lögð var fyrir velferðarráð borgarinnar og síðar borgarráð segir að undanfarna tvo vetur hafi fötluðum framhalds- og háskólanemum staðið til boða að fá ókeypis í strætó eins og ófötluðum.

„Í kjölfar þeirra breytinga að ófatlaðir framhalds- og háskólanemar þurfa nú að greiða fyrir nemakort í strætó veturinn 2009-2010, þykir ástæða til að skoða hvort ekki er eðlilegt að fatlaðir framhalds- og háskólanemar greiði fyrir þjónustuna,“ segir í greinargerðinni.

Gert er ráð fyrir því að fatlaðir nemar sem einnig nýta Ferðaþjónustu fatlaðra geti valið úr tveimur möguleikum varðandi greiðslu fyrir strætóferðir. Annars vegar að þeir greiði sjötíu krónur fyrir hverja ferð með strætó. Áætlað er að þetta gæti skilað tæplega 1,5 milljónum króna á ári.

Hinn möguleikinn er sá að fatlaðir nemar kaupi sérstök nemakort sem til eru í tveimur útfærslum. Þar er um að ræða haustkort á 8.000 krónur og vetrarkort sem kostar fimmtán þúsund krónur.

„Ef miðað er við að fimmtíu nemendur nýti sér ofangreint tilboð og kaupi vetrarkort má áætla að heildarinnkoma verði allt að 750 þúsund krónur,“ segir í tillögunni sem borgarráð samþykkti á fimmtudag.- gar




Fleiri fréttir

Sjá meira


×