Innlent

Æsilegt áhlaup á Kristjaníu

Jökull í íslenska lögreglubúningnum í áhlaupi á Kristjaníu. Íbúi þar taldi að nafnið hans væri vinstra megin á búningnum og skrifaði það vandlega niður.
Jökull í íslenska lögreglubúningnum í áhlaupi á Kristjaníu. Íbúi þar taldi að nafnið hans væri vinstra megin á búningnum og skrifaði það vandlega niður.

Jökull Gíslason lögreglumaður var í níu vikna skiptidvöl hjá lögreglunni í Kaupmannahöfn á dögunum. Þar kynntist hann gengjastríðum, starfsemi Vítisengla, gagnsemi lögregluhunda, mansalsmálum og fleiru. Hann tók meðal annars þátt í áhlaupi á Kristjaníu með dönsku óreirðalögreglunni, sem hann segir frá hér.

„Fjörið byrjaði með því að ég fékk að vera með í áhlaupi á Kristjaníu,“ segir Jökull Gíslason lögreglumaður hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.

Jökull var í níu vikur í skipti­dvöl hjá lögreglunni í Kaupmannahöfn og kynntist þar allt öðru umhverfi en lögreglan á Íslandi starfar í. Hann kynntist gengjastríðum, rótgróinni starfsemi Vítisengla. gagnsemi tuga lögregluhunda, mansalsmálum og svo mætti áfram telja.

„Óeirðalögreglan fer inn í Kristjaníu tvisvar eða oftar í mánuði,“ útskýrir Jökull. „Það er þó nokkuð síðan íbúar svæðisins misstu yfirráð sín yfir hass­sölunni og í dag eru þeir í samkeppni um markaðinn við Vítisengla með tilheyrandi ofbeldi.“

Þegar lögreglan kom inn á svæðið, hurfu allir hasssalarnir eins og hendi væri veifað, því þeir hafa komið sér upp öflugu viðvörunarkerfi.

„Það gerði ekkert til, hundarnir komu og þennan dag var lagt hald á þrjú kíló af hassi sem fundust falin um svæðið. Ég var ekki í lögreglubúningi þennan dag og ef heimamönnum er illa við lögreglumenn í einkennisfötum þá er þeim enn verr við þá sem ekki í búningi. Meðan ég dvaldi þar tóku ýmsir af mér myndir þannig að ég er lítið á leiðinni þangað í frítíma mínum í framtíðinni.“

Skömmu síðar var farið í annað áhlaup í Kristjaníu og í þetta sinn klæddist Jökull íslenskum lögreglubúningi.

„Þótt ég væri í búningi nú þá komu nokkrir heimamanna til mín og sögðust muna eftir mér frá því síðast og voru lítt hrifnir af þessu „alþjóðlega“ samstarfi dönsku lögreglunnar. Kona kom til mín og sýndi mér þegar hún skrifaði nafnið mitt í bók. Ég var ekkert að leiðrétta hana þar sem hún taldi að nafnið mitt væri „Lögreglan“ því augljóslega var Police vinstra megin á búningnum og því hlaut hitt að vera nafnið. Þannig að einhvers staðar í Kristjaníu er skráð að lögreglumaðurinn „Lögreglan“ hafi verið þar.

Jökull eyddi tveimur dögum með hundadeild lögreglunnar ytra og þótti mikið til koma.

„Ég fékk að fylgjast með sprengiefnaleitarhundum og fíkniefnaleitarhundum en mest þótti mér til lögregluhundanna koma. Þeir eru þjálfaðir til að leita uppi fólk og sönnunargögn og ná mönnum og yfirbuga þá. Hundarnir finna allt og alla. Þeir standa kyrrir meðan sá sem þeir finna gerir það. Ef hann hreyfir sig fara þeir samstundis í hann.“jss@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×