Innlent

Rúmlega 33 þúsund skora á forsetann

Rúmlega 33 þúsund Íslendingar höfðu í gær skráð nöfn sín á áskorun til forseta Íslands um að synja Icesave-lögum staðfestingar á vef Indefence-hópsins.

Fjöldi þeirra sem undirritað hafa áskorun Indefence-hópsins er fyrir nokkru kominn yfir fjölda þeirra sem skoruðu á forsetann að synja fjölmiðlalögum ríkisstjórnarinnar staðfestingar sumarið 2004. Þá skoruðu 31.752 Íslendingar á forsetann, sem í kjölfarið synjaði lögunum staðfestingar með tilvísun í gjá milli þingvilja og þjóðarvilja í málinu.

Jóhannes Þ. Skúlason, meðlimur Indefence, segist mjög ánægður með þann mikla fjölda sem skrifað hafi undir áskorunina. Þó verði að taka tillit til þess að eftir sé að keyra listann saman við þjóðskrá. Það verði ekki gert fyrr en Alþingi hafi afgreitt Icesave-frumvarpið.

Ef marka má stikkprufur sem gerðar hafa verið eru fáar undirskriftir rangar, og yfirgnæfandi meirihluti er frá fólki á kosningaaldri, segir Jóhannes. Augljóslega röngum undirskriftum sé eytt út daglega.

Samkvæmt nýrri könnun MMR fyrir Viðskiptablaðið vilja 69,2 prósent þeirra sem taka afstöðu að forsetinn synji lögunum staðfestingar og vísi þeim til þjóðaratkvæðagreiðslu. Alls vilja 30,8 prósent að hann staðfesti lögin. Svarendur í könnuninni voru 924 á aldrinum 18 til 67 ára, valdir af handahófi úr hópi álitsgjafa MMR. - bj






Fleiri fréttir

Sjá meira


×