Skoðun

Strætósamgöngur og bílastæði

Ari Tryggvason skrifar

Þann 1.febrúar síðastliðinn var ferðum fækkað um kvöld og helgar hjá Strætó BS. En hægt og bítandi leiðir efnahgsástand þjóðarinnar æ fleir til strætó. Þorri fólks hefur ekki lengur efni á þeim samgöngulúxus sem viðgengist hefur hér. Samhliða þessari þjónustuskerðingu er ekkert lát á bílastæðisvæðingu samfélagsins.

Til marks um það eru bílastæði hins nýja Háskóla Reykjavíkur í Öskjuhlíðinni. Stæðin eru undir berum himni, sem krefst gríðarlegs landflæmis til skaða fyrir fólk og umhverfi. Væntanlega eru stæðin gjaldfrjáls. Mjög gróflega áætlað hefur t.d.Háskóli Íslands um 2500 bílastæði til umráða. Talið er að kostnaður við hvert bílastæði sé um 20þús. kr. á mánuði.

Miðað við nýtingu skólaársins gæfi það 450miljónir króna árlega. Ennfremur er mikilvægt að endurskoða þá byggingarlöggjöf sem gildir nú, þar sem gert er ráð fyrir tveim bílastæðum með hverri íbúð. Slíkar reglur gera ekkert annað en að festa einkabílinn í sessi sem samgöngutæki og er um leið hamlandi gagnvart strætósamgöngum.

Með þessari þjónustuskerðingu leggjast strætóferðir nánast af með leið 23 útá Álftanes og til Vífilsstaða. Einungis verða þrjár ferðir í boði útá Álftanes á morgnana og fimm síðdegis og enn færri til Vífilsstaða. Engin þjónusta verður á kvöldin og um helgar. Fyrir bragðið verða börn og unligar ennþá háðari skutli foreldra sinna eða freistast jafnvel til að fara á puttanum.

Það er brýnt að samgönguráðuneytið taki þátt í þróun strætósamgangna á höfuðborgarsvæðinu, vegna þess að það er ekki einungis hagur höfuðborgarsvæðisins, heldur allra landsmanna. Höfuðborgin er andlit þjóðarinnar útá við og er strætósamgöngur mikilvægur þáttur í aðdráttarafli hennar. Á seinasta ári fóru erlendir ferðamenn fyrsta sinn yfir 500þús. Sýnum þjóðinni og heiminum að við lærum af þeirri gríðarlegu efnahagskreppu sem þjóðin á við að glíma og bökkum aðeins út úr þeirri dýru einkabílasamgönguhyggju sem hér hefur ríkt undanfarna áratugi.

Gerum meðalfjölskyldu kleift að láta einn bíl duga með öflugra strætókerfi. Nýtum þannig þá fjármuni sem gætu sparast í gatnagerð og viðhald þess í fullkomnari strætósamgöngur.






Skoðun

Sjá meira


×