Erlent

Metfjöldi framseldur til Bandaríkjanna

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Felipe Calderon, forseti Mexíkó.
Felipe Calderon, forseti Mexíkó.

Aldrei hafa fleiri afbrotamenn verið framseldir frá Mexíkó til Bandaríkjanna en á þessu ári.

Bara núna um helgina framseldu mexíkósk yfirvöld ellefu manns yfir til nágranna sinna í norðri, Bandaríkjamanna, og hafa þá eitt hundrað manns verið framseldir það sem af er þessu ári en allt árið í fyrra varð fjöldi framseldra 95 sem var met þá. Stjórn Felipe Calderon, forseta Mexíkó, hefur verið iðin við að framselja afbrotamenn sem eiga yfir höfði sér ákærur á bandarískri grundu þar sem bandarísk fangelsi þykja mun heppilegri en þau mexíkósku til vistunar þeirra.

Mikið er um að afbrotamönnum auðnist að sleppa úr fangelsunum í Mexíkó og ekki er minna um að þeir haldi áfram að brjóta af sér meðan á afplánun stendur. Af þeim ellefu sem framseldir voru um helgina eiga fjórir yfir höfði sér ákærur vegna fíkniefnamála en hinir fyrir rán, morð og aðra glæpi í fimm ríkjum Bandaríkjanna. Saksóknarinn Eric Holder segir framsalsmálin senda skýr skilaboð til bandarískra afbrotamanna um að þeim nægi ekki að forða sér yfir landamærin og til Mexíkó til að sleppa undan réttvísinni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×