Erlent

Drukknir Bretar vandamál í Grikklandi

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Sagt er að gott sé að djamma og djúsa á grískri grundu.
Sagt er að gott sé að djamma og djúsa á grískri grundu.

Bresk yfirvöld standa nú fyrir herferð með það fyrir augum að bæta hegðun ungra Breta sem heimsækja Grikkland.

Grikkjum þykir orðið nóg um hvernig yngsta kynslóð ferðamanna frá Bretlandi gengur um sumarleyfisparadísir þeirra en breskir ferðamenn eru fimmtungur þeirra 15 milljóna ferðamanna sem heimsækja Grikkland ár hvert. Samkvæmt upplýsingum breska utanríkisráðuneytisins eru 70 prósent þeirra atvika, sem ræðismaður Bretlands í Grikklandi þarf að hafa afskipti af, vegna fólks á aldrinum 16 til 20 ára og eru oftar en ekki tengd ofdrykkju með einhverjum hætti.

Gefnir hafa verið út bæklingar með ýmsum gömlum húsráðum sem öll beinast að því að fólk verði ekki ofurölvi þegar það bergir á áfengum veigum og ferðaskrifstofur látnar gauka þeim að fólki á vissum aldri sem kaupir ferðir til Grikklands. Þá munu fulltrúar bresku og grísku lögreglunnar koma saman til fundahalda í næstu viku og leggja á ráðin um það hvernig höndla megi ýmsar uppákomur á vegum dauðadrukkinna breskra ferðamanna sem oft eru lítt við alþýðuskap á götum Grikklands.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×