Erlent

Rússnesk baráttukona myrt

Natalia Estemirova, rúmlega fertug baráttukona fyrir mannréttindum, fannst í gær myrt í Ingúsetíu skammt frá landamærum Téténíu.

Hún hefur rannsakað í þaula mannrán, morð og fleiri mannréttindabrot í Téténíu og hafði meðal annars starfað með Önnu Politkovsköju, rússnesku blaðakonunni sem var myrt í Moskvu fyrir nærri þremur árum.

Hún var í gær stödd í Grosní, höfuðborg Téténíu, þegar fjórir menn neyddu hana til að fara inn í bifreið og óku á burt. Vitni heyrðu hana hrópa að verið væri að ræna sér.

Nokkru síðar fannst lík hennar í vegarkanti í Ingúsetíu, rétt handan landamæra þessara héraða.

Morðið var framið aðeins fáeinum klukkustundum eftir að efnt var til blaðamannafundar í Moskvu, þar sem mannréttindasamtök kynntu skýrslu um framferði Rússa í Téténíu. Þar voru færð rök fyrir því að draga ætti Vladimír Pútín forsætisráðherra og fleiri rússneska ráðamenn fyrir alþjóðlegan dómstól vegna glæpa sem framdir hafa verið í héraðinu í tengslum við tvö stríð þar undanfarin fimmtán ár.

Fleiri einstaklingar, sem Estemirova hefur unnið með, hafa verið myrtir á síðustu árum. Meðal þeirra var lögfræðingurinn Stanislav Merkelov, sem var myrtur á götu í Moskvu í janúar. - gb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×