Innlent

Sótti um stöðu saksóknara vegna bankahrunsins eftir hvatningu

Magnús Már Guðmundsson skrifar
Ólafur Þór Hauksson tekur við embætti sérstaks saksóknara vegna bankahrunsins 1. febrúar nk.
Ólafur Þór Hauksson tekur við embætti sérstaks saksóknara vegna bankahrunsins 1. febrúar nk.

Ólafur Þór Hauksson, sýslumaður á Akranesi, sem Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, skipaði í dag til að gegna embætti sérstaks saksóknara vegna bankahrunsins gerði það eftir hvatningu. Hann vill ekki greina frá því hvort að Björn hafi hvatt hann til að sækja um stöðuna. Dómsmálaráðherra hafði samráð við fulltrúa allra þingflokka í allsherjarnefnd Alþingis þegar hann skipaði Ólaf í starfið. Nýja starfið leggst afar vel í Ólaf.

Ólafur mun veita forstöðu rannsóknar- og saksóknaraembætti sem rannsaka á grun um refsiverða háttsemi í aðdraganda, tengslum við og kjölfar bankahrunsins í byrjun október á seinasta ári.

Hugleiddi ekki að sækja um stöðuna þegar hún var fyrst auglýst

,,Ég var hvattur til að sækja um þetta starf og bent á möguleikann að fá tímabundna lausn frá störfum," segir Ólafur aðspurður hvort dómsmálaráðherra hafi hvatt hann til að sækja um stöðuna. Ólafur telur óþarfi að greina nánar frá aðdraganda umsóknar sinnar.

Hann segist ekki hafa leitt hugann sérstaklega af því að sækja um stöðuna þegar hún var fyrst auglýst. Umsóknarfrestur var framlengdur eftir að enginn sótti um stöðuna og rann hann út í gær.

Afar krefjandi verkefni

,,Þetta er mjög áhugavert og stórt verkefni og er á því sviði sem ég hef starfað að nokkuð lengi, þ.e.a.s. rannsóknir og saksókn þannig að þetta er mjög ögrandi verkefni," segir Ólafur. Hann greinir mikinn stuðning meðal almennings og ráðamanna við að þessi vinna fari fram.

Sýslumaður í 11 ár

Ólafur tekur við embættinu 1. febrúar næst komandi. Hann segir að næstu dagar muni fara í að ganga frá lausum endum í núverandi starfi sem og undirbúning fyrir nýja starfið.

Ólafur hefur gegnt embætti sýslumanns á Akranesi, sem hann kveður nú tímabundið, allt frá árinu 1998.








Tengdar fréttir

Ólafur Þór verður sérstakur saksóknari

Björn Bjarnason dóms- og kirkjumálaráðherra hefur í dag, að höfðu samráði við fulltrúa allra þingflokka í allsherjarnefnd Alþingis, falið Ólafi Þór Haukssyni, sýslumanni á Akranesi, að gegna embætti sérstaks saksóknara.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×