Innlent

Söngvari The Virgin Tongues slasaðist á Skólavörðustígnum

Söngvari bandarísku hljómsveitarinnar The Virgin Tongues, Duncan McKnight, slasaðist lífshættulega þegar hann féll ríflega tíu metra niður af þaki fjögurra hæða húss við Skólavörðustíg í gærmorgun. Honum var í gærkvöldi haldið sofandi í öndunarvél á gjörgæsludeild Landspítalans.

McKnight fannst liggjandi stórslasaður í blóði sínu fyrir utan Skólavörðustíg 3 á áttunda tímanum í gærmorgun. Lögregla telur að hann hafi fallið af þaki hússins þegar hann var að reyna að klifra á milli glugga. Fallið er um tíu metrar.

McKnight var fluttur meðvitundarlaus á sjúkrahús. Að sögn læknis á gjörgæslu var honum í gærkvöldi haldið sofandi í öndunarvél. Hann er höfuðkúpubrotinn með mikla innvortis áverka. Læknir segir líðan hans eftir atvikum.

McKnight og hljómsveit hans ætluðu að troða upp ásamt íslensku hljómsveitinni Singapore Sling á Sódómu í kvöld. Í gærkvöldi stóð til að tónleikarnir yrðu eftir sem áður haldnir og að sveitin Kid Twist leysti The Virgin Tongues af hólmi. Ágóðinn myndi síðan renna óskiptur til McKnights. Áætlað er að húsið verði opnað klukkan tíu. Miðaverð er 1.500 krónur. - sh




Fleiri fréttir

Sjá meira


×