Innlent

Landgrunn vöktuð í von um að loðna finnist

Ákveðið hefur verið að vakta öll grunn við sunnanvert landið þar sem von er til að loðna gangi í einhverju magni. Enn hefur ekki tekist að mæla nægilegt magn til þess að fiskifræðingar treysti sér til að gefa út byrjunarkvóta á loðnuveiðunum. Nú er því veitt af 15 þúsund tonna rannsóknakvóta sem sjávarútvegsráðherra gaf út í síðustu viku.

Lundey NS var við loðnuleit í síðustu viku og fer aftur til veiða í kvöld, samkvæmt upplýsingum á vef HB Granda. Um borð í skipinu verður starfsmaður frá Hafrannsóknastofnun en sá hefur síðustu daga fylgst með veiðum annarra skipa með það að markmiði að fylgjast með loðnutorfunum fyrir og eftir veiðar úr þeim. Það er gert í því skyni að finna út þéttleika loðnunnar en mikið hefur borið á milli skoðana sjómanna í þeim efnum og þess stuðuls sem Hafrannsóknastofnunin notar við mælingar sínar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×