Innlent

Evrópusambandið hvetur til 30 prósenta samdráttar

vilja samræmt markmið Andreas Calgren, umhverfisráðhera Svíþjóðar, og Stavros Dimas, framkvæmdastjóri loftslagsmála hjá ESB, lögðu áherslu að markmið allra iðnríkjanna þyrftu að vera sameiginleg.fréttablaðið/kóp
vilja samræmt markmið Andreas Calgren, umhverfisráðhera Svíþjóðar, og Stavros Dimas, framkvæmdastjóri loftslagsmála hjá ESB, lögðu áherslu að markmið allra iðnríkjanna þyrftu að vera sameiginleg.fréttablaðið/kóp

„Hvernig er hægt að hafa mismunandi samninga um útblástur í þróuðu ríkjunum sem stýrast af pólitík?“ Svo spurði Stavros Dimas, framkvæmdastjóri umhverfismála hjá Evrópusambandinu, á blaðamannafundi í gær. Það duldist engum að hann beindi spjótum sínum að Bandaríkjunum og hann fórnaði höndum um leið og dæsti. Slík þreytumerki eru farin að sjást á ýmsum fulltrúum hér, en allt er enn á huldu með samninga.

Tillögur Evrópusambandsins eru mjög metnaðarfullar, en lagt er til að iðnríkin dragi úr útblæstri sínum um 30 prósent árið 2020, miðað við árið 1990. Sambandið hefur einhliða skuldbundið sig til að draga úr útblæstri um 20 prósent, en er tilbúið að fara í 30 prósent ef tekst að semja þar um. Þá vill sambandið að þróunarríki dragi að meðaltali úr útblæstri um fimmtán til þrjátíu prósent á sama tíma.

Andreas Calgren, umhverfisráðherra Svíþjóðar, en Svíar eru í forsæti Evrópusambandsins, sagði aðspurður að sambandið mundi ekki vera tilbúið að ganga lengra en uppgefin tuttugu prósent einhliða. Nota þyrfti þau auka tíu prósent, sem sambandið er tilbúið til að bæta við, til samninga og að beita önnur ríki þrýstingi. Annars væri verið að selja þennan aukaniðurskurð ódýrt.

Hann minnti á að lagasetning Evrópusambandsins hefði undanfarinn áratug tekið mið af Kyoto-bókuninni. Nú vildi sambandið ganga lengra.

Evrópusambandið hefur lagt mikla áherslu á að sömu reglur gildi um öll iðnríki. Svo er ekki nú, þar sem Bandaríkin og fleiri ríki hafa neitað að staðfesta Kyoto. Þá hefur sambandið lagt til að farið sé hratt í breytingar.

Náist samkomulag hér í Kaupmannahöfn, hefjist löndin handa þegar í stað við að draga úr losun. Komið verði á fót sjóði til að styðja ríki strax af stað í því skyni.

Tillögur Evrópusambandsins gera einnig ráð fyrir að árið 2020 hafi minnkun regnskóga dregist saman um helming og algjörlega stöðvast í síðasta lagi tíu árum síðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×