Innlent

Milljóna biðlaun frá fjárvana bæjarfélagi

„Þetta er alveg borðleggjandi," segir Sigurður Magnús­son, fyrrverandi bæjarstjóri á Álftanesi, sem krefst þess að fá greidd átta mánaða biðlaun.

Sigurður tók við sem bæjarstjóri í júní 2006 eftir kosningar þá um vorið en lét af störfum í september síðastliðinn eftir meirihlutaskipti í bæjarstjórn.

Samkvæmt ráðningar­samningi á hann að fá greidda tvo mánuði í biðlaun fyrir hvert hafið ár í bæjarstjórastólnum. „Hjá mér var biðlaunarétturinn stigvaxandi og gat verið aðeins tveir mánuðir ef ég hætti snemma á tímabilinu," útskýrir Sigurður.

Biðlaun bæjarstjórans fyrrverandi hafa verið rædd í bæjarráði og bæjarstjórn án þess að hljóta afgreiðslu. Sigurður hefur lagt fram lögfræðiálit um að hann eigi rétt á átta mánaða biðlaunum og kveðst eiga von á því að ekki verði ágreiningur um niðurstöðuna. Engu breyti um hans launamál að Álftanes sé talið komið í greiðsluþrot. „Ég held að sveitarfélagið sé ekki með hugmyndir um að brjóta ráðningarsamninga á neinum starfsmönnum sínum þó að það sé í vandræðum. Ég held að það eigi hvorki við um bæjarstjóra né aðra millistjórnendur sem hugsanlega verður sagt upp núna - eins og ég held að sé í pípunum," segir hann.

Ekki liggja fyrir upplýsingar um hverjar greiðslurnar til Sigurðar eiga nákvæmlega að vera en gera má ráð fyrir að þær verði minnst 6,4 milljónir króna.

„Við erum alls ekki sátt, það segir sig sjálft," segir Kristinn Guðlaugsson, forseti bæjar­stjórnar Álftaness, um þá kröfu Sigurðar Magnússonar, fyrrverandi bæjarstjóra, að fá átta mánaða biðlaun. „En það er hins vegar samningur í gildi þó svo að við höfum ekki samþykkt hann á sínum tíma."- gar /






Fleiri fréttir

Sjá meira


×