Innlent

Kanna sparnað með opnum hugbúnaði

Kardemommubærinn í Þjóðleikhúsinu. Í svari fjármálaráðherra um kosti og galla opins hugbúnaðar kemur fram að Þjóðleikhúsið hafi sparað umtalsverðar fjárhæðir með innleiðingu slíks búnaðar í sumar. Mynd/Þjóðleikhúsið
Kardemommubærinn í Þjóðleikhúsinu. Í svari fjármálaráðherra um kosti og galla opins hugbúnaðar kemur fram að Þjóðleikhúsið hafi sparað umtalsverðar fjárhæðir með innleiðingu slíks búnaðar í sumar. Mynd/Þjóðleikhúsið

Heildarkostnaður ríkisins vegna hugbúnaðar nam 7,5 milljörðum króna á þriggja ára tímabili, 2006 til 2008. Þetta kemur fram í svari fjármálaráðherra við fyrirspurn Birgittu Jónsdóttur, þingmanns Hreyfingarinnar.

Fram kemur að í fjármálaráðuneytinu sé hafin greining á kostnaði við upplýsingatækni hjá ríkinu. „Auk þess hafa nokkur ráðuneyti nýlega hafið skoðun á kostum og göllum frjáls og opins hugbúnaðar. Búist er við niðurstöðum úr þeirri vinnu næsta vor,“ segir þar.

Fram kemur að kostnaður við sérsniðinn hugbúnað sé um áttatíu prósent af heildarkostnaði ríkisins vegna hugbúnaðar þessi þrjú ár.

Þá kemur fram að Þjóðleikhúsið hafi innleitt opinn og frjálsan hugbúnað fyrir tölvupóstkerfi og skrifstofuvöndla og talið sé að kostnaðurinn við þessi kerfi sé fyrsta árið um fjórðungur af árlegum kostnaði áður.

Ályktar ráðherra því sem svo að til lengri tíma litið væri hægt að spara verulega fjármuni hjá ríkis­stofnunum með því að innleiða frjálsan og opinn hugbúnað. „Sparnaðartækifærin liggja í vali á skrifstofuvöndli, stýrikerfum og ýmsum sérhæfðum hugbúnaði. Þó verður að meta kosti slíkra lausna þar sem flókin vinnsla upplýsinga og notkun stórra gagnagrunna á sér stað.“

Halldór Jörgensson, framkvæmdastjóri Microsoft á Íslandi, kallar þó eftir nánari upplýsingum og telur trauðla hægt að álykta um mögulegan sparnað strax. Hann segir að horfa verði til kostnaðar við rekstur kerfanna.

„Samkvæmt okkar tölum, ef tekinn er heildarkostnaður af upplýsingakerfum og rekstri þeirra, þá eru leyfisgjöld að meðaltali 7,5 prósent. Mestur er kostnaðurinn vegna reksturs, innleiðingar og verkefna af ýmsu tagi,“ segir hann.

Að sama skapi segir hann að tölur um sparnað hjá Þjóðleikhúsinu séu vart marktækar fyrst ekki sé um lengra tímabil að ræða. „Viðvarandi rekstrarkostnaður er miklu hærri þegar um opinn hugbúnað er að ræða,“ segir hann. olikr@frettabladid.isAthugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.