Innlent

Starfsmenn sjaldan áminntir

Menntamálaráðuneytið á Sölvhólsgötu. Ráðuneytið hefur bæði þurft að áminna starfsmenn og skipa tilsjónarmenn yfir undirstofnanir sínar á tímabilinu.fréttablaðið/stefán
Menntamálaráðuneytið á Sölvhólsgötu. Ráðuneytið hefur bæði þurft að áminna starfsmenn og skipa tilsjónarmenn yfir undirstofnanir sínar á tímabilinu.fréttablaðið/stefán

Þrjú ráðuneyti hafa á síðastliðnum fimm árum áminnt embættis- eða starfsmenn undirstofnana og eitt ráðuneyti hefur þurft að skipa tilsjónarmann með rekstri undirstofnana sinna á sama tímabili.

Þetta kemur fram í svari fjármálaráðherra við fyrirspurn Þorgerðar K. Gunnarsdóttur, varaformanns Sjálfstæðisflokksins, um veittar áminningar starfsmanna á vegum ráðuneytanna og skipun tilsjónarmanna með undirstofnunum þeirra.

Á tímabilinu hafa undirstofnanir fjármálaráðuneytisins í fjórgang veitt starfsmönnum áminningu. Ríkisskattstjóri átti þar tvisvar í hlut og tollstjóri jafn oft. Menntamálaráðherra hefur veitt þremur embættismönnum áminningu, árið 2004 og tvær árið 2008.

Í tveimur tilfellum var skipaður tilsjónarmaður með rekstri stofnana menntamálaráðuneytisins, annars vegar yfir rekstur Fjölbrautaskólans í Breiðholti árið 2008 og Háskólans á Hólum á þessu ári.

Einn forstöðumaður landbúnaðarráðuneytisins var áminntur á tímabilinu og eins þrír starfsmenn Hafrannsóknastofnunar auk starfsmanns Rannsóknarstofnunar fiskiðnaðarins, undanfara Matís.

Ekki barst svar frá dómsmála- og mannréttindaráðuneytinu þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir um upplýsingarnar. - shá




Fleiri fréttir

Sjá meira


×