Innlent

Býður borginni samgöngumiðstöð

Kristján Már Unnarsson skrifar
Samgönguráðherra býður borgarstjóra nýja samgöngumiðstöð á Reykjavíkurflugvelli sem framlag til atvinnusköpunar og hvetur til þess að sett verði í fluggír og framkvæmdir hefjist á árinu.

Samgönguráðherra fundaði í gær með borgarstjóra um nýjar tillögur um samgöngumiðstöðina. Ráðherrann vill minnka bygginguna um helming frá fyrri hugmyndum og lækka kostnað niður í 1,4 milljarða króna svo unnt sé að koma verkinu í gang sem fyrst og með því skapa atvinnu.

Hann býður nú borgaryfirvöldum upp á tvo valkosti um staðsetningu, svokallaðan austur valkost norðan Loftleiðahótels, en hins vegar vestur valkost við núverandi afgreiðslu Flugfélagsins. Lítill sem enginn munur er á kostnaði en staðsetning við Loftleiðahótel myndi þjóna betur rútubílaumferð enda er byggingin ekki bara hugsuð sem flugstöð.

Hann vonast til að borgaryfirvöld flýti sinni vinnu og ef jákvæð niðurstaða fáist hafi hann fullan hug á því að framkvæmdir geti jafnvel hafist á þessu ári. Einnig hafi verið rætt um ákveðnar leiðir til fjármögnunar. Hann kveðst bjartsýnn á að fjárfestar fáist til að taka verkefnið að sér sem einkaframkvæmd.

Frá borgaryfirvöldum fengust þau viðbrögð í dag frá aðstoðarmanni borgarstjóra að stefnt væri að því að vinna málið hratt í góðu samstarfi við samgönguráðherra og ákveðið að hittast fljótt aftur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×