Innlent

Skaða þjóðarhagsmuni vegna andúðar á stóriðju

Kristján Már Unnarsson skrifar
Fyrrverandi og núverandi umhverfisráðherra voru sakaðir á Alþingi í dag um að skaða hagsmuni Íslands vegna andúðar á álverum með því að reyna ekki að viðhalda íslenska undanþáguákvæðinu í væntanlegum loftlagssáttmála Sameinuðu þjóðanna.

Illugi Gunnarsson hóf umræðuna og hvatti umhverfisráðherra til að sækja það fast að halda íslenska ákvæðinu á væntanlegri loftlagsráðstefnu í Kaupmannahöfn. Ef Íslendingar afsöluðu sér möguleikum til að nýta orkuna í fallvötnum og iðrum jarðar, með því að gangast undir skilyrði sem væru of þröng fyrir þjóðina, væru þeir um leið að afsala sér forræði yfir þessum mikilvægu auðlindum, sagði Illugi.

Kolbrún Halldórsdóttir umhverfisráðherra kvaðst ætla að fylgja stefnu sem síðasta ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar markaði, sem þýddi 15-20 prósenta samdrátt í losun á næstu tíu árum. Hún kvaðst styðja þau markmið enda færu þau saman við markmið sín og síns flokks í loftslagsmálum og náttúruvernd.

Siv Friðleifsdóttir sagði það hafa kostað geysilega vinnu að ná ákvæðinu í gegn. Íslenska ákvæðið væri gott fyrir lofthjúpinn og því væri það grátlegt að Vinstri grænir skyldu vinna gegn þessu ákvæði. Hún sagði Þórunni Sveinbjarnardóttur fyrrverandi umhverfisráðherra ekki hafa viljað neinar undanþágur fyrir Ísland og taldi of seint að snúa við. Það væri of seint að fara af stað núna til að ná íslenska ákvæðinu. Það þyrfti svo mikla vinnu til að viðhalda því.

Kristinn H. Gunnarsson sagði það algerlega óskiljanlegt að til væru íslenskir stjórnmálaflokkar sem hefðu þá stefnu að rýra möguleika Íslendinga til atvinnuppbyggingar, jafnvel þótt þeir möguleikar væru heiminum í heild til góða. Andúð þeirra á stóriðju væri svo mikil að þeir vildu frekar skaða hagsmuni lands og þjóðar.

 








Fleiri fréttir

Sjá meira


×