Erlent

Berlusconi nefbrotinn og marinn

Óli Tynes skrifar
Berlusconi eftir árásina í gærkvöldi.
Berlusconi eftir árásina í gærkvöldi. Mynd/AP

Silvio Berlusconi forsæltisráðherra Ítalíu er nefbrotinn og það brotnuðu úr honum tennur eftir að maður fleygði þungri myndastyttu í andlit hans á pólitískum fundi í Milanó í gærkvöldi.

Árásarmaðurinn var handtekinn en hann er ekki talinn ganga heill til skógar.

Berlusconi hafði rétt lokið við að flytja þrumandi ræðu og var að heilsa upp á áheyrendur sína þegar hinn fjörutíu og tveggja ára gamli Massimo Tartaglia lét til skarar skríða. Berlusconi var þá í miðjum mannfjöldanum.

Tartaglia hélt á styttu af dómkirkjunni í Milanó sem hann fleygði af afli í andlit forsætisráðherrans. Lífverðir hans gripu hann þegar hann féll í götuna. Þeir hífðu hann á fætur aftur og bösluðu honum inn í bíl.

Aðrir lífverðir gripu árásarmanninn. Mikið upphlaup varð við þetta. Nokkrir viðstaddra náðu Tartaglia úr höndum lífvarðanna og létu höggin dynja á honum. Lífverðirnir náðu honum þó fljótlega aftur í sínar hendur og leiddu hann á brott.

Berlusconi var fluttur á sjúkrahús þar sem gert var að sárum hans. Læknir hans sagði að það tæki hann líklega um tvær vikur að jafna sig á árásinni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×