Innlent

Milljarði sóað í dráttarvexti

Ríkisstofnanir greiddu 1,2 milljarða króna í dráttarvexti frá ársbyrjun 2007 fram á mitt þetta ár. Stofnanir sem greiddu yfir milljón króna voru 37 talsins en sex þeirra bera meirihluta þessa kostnaðar og er uppsöfnuðum rekstrarhalla undanfarinna ára um að kenna.

Stofnunum er ekki heimilt samkvæmt lögum að fjármagna rekstur með lánum eða yfirdrætti.

Þetta kemur fram í samantekt Ríkisendurskoðunar fyrir Fréttablaðið um dráttarvaxtagreiðslur ríkisstofnana. Á síðasta ári greiddi A-hluti ríkissjóðs, en til hans heyrir hin eiginlega starfsemi ríkissjóðs sem fjármögnuð er af skatttekjum, tæpar 650 milljónir króna í dráttarvexti til aðila utan ríkisins. Þar af námu dráttarvextir sem tengjast bankahruninu með beinum hætti samtals yfir 150 milljónum króna.

Í skýrslu Ríkisendurskoðunar um endurskoðun ríkisreiknings 2008 kemur fram að dæmi er um að stofnanir sem starfa innan fjárheimilda, greiða engu að síður umtalsverðar upphæðir í dráttarvexti. Ríkisendurskoðun telur nauðsynlegt að tekið verði á þessum vanda í heild sinni tafarlaust og að með öllu sé ólíðandi að stofnanir greiði dráttarvexti að ástæðulausu.

Ríkisendurskoðun hvetur fjármálaráðuneytið til þess að bjóða stofnunum sem eiga í verulegum rekstrarvanda upp á endurfjármögnun skulda á meðan unnið er að varanlegri lausn rekstrarvandans.

Nokkrar stofnanir skera sig úr hvað varðar greiðslu dráttarvaxta. Þær eiga það sammerkt að bera uppsafnaðar skuldir frá síðustu árum; aðallega til birgja. - shá










Fleiri fréttir

Sjá meira


×