Innlent

Ítarleg lögfræðileg álitsgerð óþörf

Davíð Þór Björgvinsson
Davíð Þór Björgvinsson

Davíð Þór Björgvinsson, dómari við Mannréttindadómstól Evrópu í Strassborg, telur ekki tilefni til að efast um að Icesave-frumvarpið standist stjórnarskrá. Er hann raunar þeirrar skoðunar að ástæðulaust sé að tekin verði saman ítarleg lögfræðileg álitsgerð um málið.

Davíð er í hópi þeirra lögspekinga sem fjárlaganefnd Alþingis hefur, að ósk stjórnarandstæðinga, beðið um að skrifa lögfræðiálit um hvort Icesave standist ákvæði stjórnarskrár. Snýst álitaefnið um hvort í frumvarpinu felist framsal dómsvalds og þar með brot á stjórnarskránni.

Í bréfi til þingsins segir Davíð að reynist skilningur hans á frumvarpinu réttur geti hann ekki séð að um framsal dómsvalds geti verið að ræða, sem fari gegn stjórnarskrá. „Sýnist raunar þetta atriði það einfalt [að] ekki sé tilefni til að taka saman ítarlega lögfræðilega álitsgerð um það sérstaklega," segir í bréfinu.

Að því sögðu kveðst Davíð ekki geta tekið að sér að vinna umbeðið lögfræðiálit vegna starfa sinna í Strassborg.

Guðrún Erlendsdóttir og Pétur Kr. Hafstein, fyrrverandi hæstaréttardómarar og Skúli Magnússon, ritari EFTA-dómstólsins í Lúxemborg, hafa einnig beðist undan verkefninu.

Lagaprófessorarnir Björg Thorarensen og Eiríkur Tómasson vinna hins vegar að álitsgerð um málið, að ósk meirihluta fjárlaganefndar.

Stjórnarandstæðingar telja þau vanhæf þar sem þau hafa áður komið fyrir nefndina og látið í ljós álit sitt munnlega. Munu þau þeirra skoðunar að Icesave-frumvarpið brjóti ekki í bága við stjórnarskrá.- bþs




Fleiri fréttir

Sjá meira


×