Enski boltinn

Drogba tryggði Chelsea sæti í úrslitunum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Didier Drogba skorar sigurmark Chelsea.
Didier Drogba skorar sigurmark Chelsea. Nordic Photos / Getty Images
Didier Drogba var hetja Chelsea er hann tryggði sínum mönnum 2-1 sigur á Arsenal í undanúrslitum ensku bikarkeppninnar í dag.

Arsenal komst yfir með marki Theo Walcott á 18. mínútu en Florent Malouda jafnaði metin fjórtán mínútum síðar.

Drogba fékk svo á 84. mínútu langa sendingu frá Frank Lampard. Drogba fór framhjá Lukasz Fabianski, markverði Arsenal, og afgreiddi knöttinn örugglega í autt netið.

Arsenal byrjaði ágætlega í leiknum og uppskáru mark frekar snemma. Kieran Gibbs átti sendinguna frá vinstri kantinum á Walcott sem skaut að marki. Boltinn hafði viðkomu í Ashley Cole sem var nóg til að setja Petr Cech markvörð úr jafnvægi.

Lampard var einnig maðurinn að baki fyrra marki Chelsea. Hann átti langa sendingu upp völlinn á Florent Malouda sem gerði mjög vel. Hann lék á Emmanuel Eboue og afgreiddi knöttinn í nærhornið með snyrtilegu skoti.

Sigur Chelsea var verðskuldaður í dag en Arsenal náði sér aldrei almennilega á strik eftir mark liðsins í upphafi leiksins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×