Innlent

Mættu með heimatilbúnar reyksprengjur á Hótel Borg

Mótmælendur mættu með heimatilbúnar reyksprengjur við Hótel Borg á gamlársdag þegar sem hin árlega Kryddsíld Stöðvar 2 stóð yfir, samkvæmt Herði Jóhannessyni aðstoðaryfirlögregluþjóni lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Upp úr sauð í gamlársdag við hótelið þegar rúmlega 200 manns söfnuðust þar saman og létu ófriðlega. Lögreglan beitti piparúða gegn mótmælendum sem létu sér ekki segjast og hófu ennfremur grjótkast og fóru lögreglumenn ekki varhluta af því. Lögreglumaður kinnbeinsbrotnaði og voru þrír handteknir.

,,Við sáum og fundum að menn höfðu verið með einhverskonar heimatilbúnar reyksprengjur sem voru í formi niðursuðudósa sem voru fylltar með saltpétri og sykri," sagði Hörður í þættinum Reykjavík síðdegis áðan. ,,Þetta er einhver uppskrift á netinu skilst okkur."

Hörður sagði á fámennur hópur mótmælenda sé komin yfir ákveðna línu með hegðun sinni sem verði aldrei viðurkennd. ,,Í þessum aðgerðum sem hafa verið í haust þá er þetta allt saman til á myndefni og þetta hleypur ekkert frá okkur."

Hörður fullyrti jafnframt að hópur fólks virðist sækjast eftir átökum við lögreglumenn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×