Innlent

Veikir ekki stjórnarsamstarfið

Fjármálaráðherra segir það ekki veikja stjórnarsamstarfið að tveir þingmenn Vinstri grænna greiddu atkvæði gegn Icesave frumvarpinu. Afstaða þeirra hafi þó valdið honum vonbrigðum. Hann reiknar með að málið muni að lokum njóta stuðnings meirihluta þingmanna.

Icesave frumvarpið var samþykkt með 32 atkvæðum gegn 29 á þriðjudag og greiddu þau Lilja Mósesdóttir og Ögmundur Jónasson þingmenn Vinstri grænna atkvæði gegn frumvarpinu. Þráinn Bertelsson þingmaður utan flokka studdi frumvarpið.

„Já auðvitað voru það vonbrigði. Ég hefði auðvitað viljað að við hefðum náð að standa öll saman um þetta. Það var vitað," segir Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, aðspurður hvort það hafi verið vonbrigði að Ögmundur og Lilja hafi greitt atkvæði gegn frumvarpinu.

Hinsvegar hafi verið mikilvægt að málið naut meirihlutastuðnings og komst til nefndar. Hann sé bjartsýnn á farsælar lyktir málsins við lokaafgreiðslu þess.

„Þannig að við komum þessu leiðindamáli frá. Nóg er nú samt. Það er mikilvægt hvað sem hver segir þá er það þannig að þetta mál mun ekki gufa upp eða yfirgefa okkur," segir Steingrímur.

Steingrímur telur að afstaða þingmanna Vinstri grænna til málsins muni ekki spilla stjórnarsamstarfinu.

„Nei það held ég ekki. Það hefur engin áhrif á trúnað okkar í millum mín og forsætisráðherra og almennt á samstarfsflokkanna þó vissulega hafi þetta reynt á. Þetta er annað af kannski tveimur af stærstu og erfiðustu málum sem við höfum verið með í höndunum frá því að þessi stjórn var mynduð," segir Steingrímur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×