Innlent

Stefnir í 102 milljarða fjárlagahalla

Heimir Már Pétursson skrifar
Alþingi mun ræða fjárlagafrumvarpið í vikunni. Mynd/ GVA.
Alþingi mun ræða fjárlagafrumvarpið í vikunni. Mynd/ GVA.
Ekki tekst að minnka halla á fjárlögum næsta árs eins mikið og gert var ráð fyrir í fjárlagafrumvarpinu en nú stefnir í að hallinn verði um 102 milljarðar á næsta ári. Framlög til stjórnmálaflokka lækka sem og ráðstöfunarfé ráðherra.

Í fjárlagafrumvarpinu sem lagt var fram í byrjun haustþings var gert ráð fyrir að tekjur ríkissjóðs á næsta ári yrðu 468,2 milljarðar króna og útgjöld yrðu 555,6 milljarðar. Hallinn á næsta ári yrði því 87,4 milljarðar.

Eftir að fjárlaganefnd Alþingis hefur farið yfir frumvarpið leggur hún til breytingar sem auka útgjöld ríkissjóðs um tæpa 5 milljarða og áætlaðar tekjur lækka um 10 milljarða. Hallinn á næsta ári eykst því um tæpa 15 milljarða og verður ef þessar áætlanir ganga eftir 102 milljarðar. Til samanburðar verður hallinn á fjárlögum þessa árs um 189 milljarðar.

Þessar breytingar á fjárlagafrumvarpi næsta árs eru sagðar rúmast innan áætlana stjórnvalda og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Vegna betri skuldastöðu ríkissjóðs en áður var talið lækka vaxtagreiðslur hans um 5 milljarða á næsta ári.

Sem dæmi um breytingar frá fjárlagafrumvarpi þá var gert ráð fyrir að framlög til stjórnmálaflokka yrðu 371,5 milljónir á næsta ári. Meirihluti fjárlaganefndar lækkar þessi framlög um 10 prósent eða um 37 milljónir króna. Stjórnmálaflokkarnir skipta því á milli sín 301,5 milljónum á næsta ári. Framlög til þingflokka lækka líka. Þau voru áætluð 65 milljónir í fjárlagafrumvarpinu, lækka um 6,5 milljónir og verða 58,5 milljónir.

Þá lækkar ráðstöfunarfé ráðherranna úr 70,6 milljónum í 49,4 milljónir, eða um 21,2 milljónir króna og boðað að settar verði samræmdar reglur ráðuneyta um ráðstöfun á þessu fé.

Mestar breytingar til útgjaldalækkunar eru hjá félags- og tryggingamálaráðuneyti upp á 1,9 milljarð króna, sem skýrist aðallega af spá um minna atvinnuleysi á næsta ári en áður var áætlað. Mesta breyting til útgjaldaauka er hjá heilbrigðisráðuneytinu upp á 1,5 milljarð króna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×