Erlent

100 látnir eftir flugeldasýningu

Að minnsta kosti eitt hundrað manns eru látnir eftir sprengingu í rússnesku borginni Perm. 140 til viðbótar hlutu áverka.

Sprengingin varð í miðri flugeldasýningu sem haldin var til að fagna átta ára afmæli skemmtistaðar í borginni. Það var í raun ekki sprengingin sem banaði fólkinu heldur varð hún til þess að eldur kviknaði í veislutjaldi.

Örvænting greip þá mannfjöldann og margir tróðust undir. Aðrir köfnuðu eða létust að völdum brunasára. Rússnensk fréttastöð birti í morgun myndir að líkum sem hlaðið hafði verið upp fyrir utan skemmtistaðinn. Yfirvöld segja að brunavarnir hafi verið í ólestri á staðnum og rannsókn hefur verið sett á laggirnar.

Rúmlega ein milljón manna býr í borginni Perm en hún er sjötta stærsta borg Rússlands.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×