Innlent

Sýndarsjúklingurinn Hermann á ferð og flugi á morgun

Sýndarsjúklingurinn Hermann stendur í ströngu á morgun.
Sýndarsjúklingurinn Hermann stendur í ströngu á morgun.

Sýndarsjúklingurinn Hermann verður fluttur frá Landspítala Háskólasjúkrahúsi á morgun með sjúkrabifreið yfir á Háskólatorg. Flutningarnir munu verða strax upp úr hádegi og má reikna með ýmsum uppátækjum í Hermanni.

Eins og gefur að skilja má reikna með að slíkur flutningur reyni mjög á Hermann sem getur rétt eins þóst fá mikla verki og jafnvel að hann fái fyrir hjartað blessaður, segir Jón Örn Guðbjartsson, markaðs- og kynningarstjóri Háskóla Íslands. „Fari svo að hjartað í Hermanni stöðvist, sem er alveg eins líklegt, er sem betur fer hersing hjúkrunarfræðinga og lækna til staðar í Háskólatorgi vegna námskynningarinnar í Háskólanum á morgun," segir Jón Örn.

Hann segir að sjúkraflutningamennirnir séu líka sérmenntaðir til að glíma við bráðatilvik og muni þeir án efa sýna snör viðbrögð. „Ég hvet alla til að koma og fylgjast með því hvernig bráðaliðið mun í heild sinni bregðast við uppgerðinni í Hermanni, en hann leikur þetta svo vel blessaður að það lætur nærri að hann sé lifandi... og dauður," segir Jón Örn.

Annars segir Jón Örn að á bak við Hermann búi talsverð alvara þótt það megi líka brosa af tilburðum hans. Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands notar Hermann, sem er afar flókið tæki og eftirlíking af manni og/eða konu í fullri líkamsstærð, til að meðhöndla óteljandi sjúkdóma.

„Þetta er bylting í kennslu hjúkrunarfræðinema," segir Þórana Elín Dietz, starfsmannastjóri Heilbrigðisvísindasviðs HÍ. Hún ber hag allra starfsmanna heilbrigðisvísindasviðsins fyrir brjósti og Hermanns auðvitað líka þar sem hann starfar á hennar snærum. „Fólk fær tækifæri til að æfa sig á sýndarsjúklingi og læra af mistökum sínum áður en það fer út á stofnanir," segir Þórana Elín. Kannski að gestir í HÍ á laugardag fái að æfa sig eilítið á Hermanni, hver veit.






Tengdar fréttir

Hlúa að sýndarsjúklingnum Hermanni

Hjúkrunarfræðinemar munu hlúa að sýndarsjúklingnum Hermanni á Háskóladeginum sem fram fer í Háskóla Íslands næstkomandi laugardag. Hermann er nýtt verkfæri, brúða í fullri líkamsstærð sem getur kveinkað sér undan sýndarverkjum. Þá hefur hæfileiki Hermanns til að skipta um kyn einnig vakið athygli þeirra sem með hann hafa sýslað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×