Innlent

Hellti í sig Jagermeister - svipt ökuleyfi í þrjú og hálft ár

Héraðsdómur Suðurlands svipti í dag konu ökuréttindum í þrjú og hálft ár fyrir að hafa ekið bifreið sem lenti utan vegar undir áhrifum áfengis. Þegar konan, sem er 43 ára, kom fyrir dóminn neitaði hún að hafa ekið undir áhrifum áfengis. Hún kvaðst hafa hellt í sig 700 millilítrum af Jagermeister eftir að hún ók út í kant.

Bifreið konunnar hafnaði utan vegar við Biskupstungabraut í Grímsnesi mánudagskvöldið 29. september 2008. Vínandamagn í blóði konunnar mældist 1,61‰.

Dómarinn taldi útilokað að konan hafi getað á örfáum mínútum drukkið 700 millilítra af 35% sterku áfengi.

Konan var dæmd fyrir ölvunarakstur í lok árs 1998 og þá gekkst hún undir viðurlagaákvörðun í mars 2004 fyrir akstur undir áhrifum áfengis.

Með tillti til þess var konan dæmt til að greiða 200.000 krónur í sekt eða sitja í fangelsi í 14 daga. Hún var svipt ökuréttindum í þrjú og hálft ár. Að auki var henni gert að greiða allan sakarkostnað.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×