Innlent

Ný stjórnarskrá í þjóðaratkvæðagreiðslu innan árs

Heimir Már Pétursson skrifar

Drög að nýrri stjórnarskrá fyrir íslenska lýðveldið gæti verið komin til þjóðaratkvæðagreiðslu eftir níu til ellefu mánuð.

Stjórnarskrá Íslands er í grunninn sú sama og Danakonungur færði þjóðinni árið 1874. Þrátt fyrir fyrirheit um allsherjar endurskoðun hennar hefur það ekki gerst, þótt breytingar hafi verið gerðar á t.d. mannréttindakafla hennar.

Í frumvarpi þingmanna Framsóknarflokksins er gert ráð fyrir að stjórnlagaþing verði kallað saman innan fjögurra mánaða frá gildistöku laganna og til starfi í sex mánuði, en það hafi heimild til að framlengja starfstíma sinn um tvo mánuði telji stjórnlagaþingmenn þess þörf. Kjörnir verði 63 aðalfulltrúar á þingið í persónukjöri þar sem landið allt er eitt kjördæmi.

Einnig verði kosnir 63 fulltrúar til vara. Stjórnlagaþingmenn njóti sömu kjara og þingmenn og forsetar þess sömu kjara og forsetar Alþingis. Sá sem býður sig fram skal hafa aflað sér meðmæla 300 kosningabærra manna.

Allir sem hafa atkvæðarétt í alþingiskosningum geti kosið á stjórnlagaþingið og allir að undanskildum, þingmönnum, ráðherrum, forseta Íslands og varaþingmönnum geti boðið sig fram til stjórnlagaþings samkvæmt sömu reglum og að öðru leyti gilda um framboð til Alþingis.

Hver kjósandi megi kjósa sjö fulltrúa til þingsins.Þegar stjórnlagaþing hefur lokið störfum skal tillaga að nýrri stjórnarskrá lögð í þjóðaratkvæðagreiðslu innan tveggja mánaða og ræður þá einfaldur meirihluti hvort hún verður samþykkt eða ekki.

Náist ekki tilskilinn meirihluti, skal stjórnlagaþing koma saman aftur og þá verða varafulltrúar aðlfulltrúar og öfugt.

Það þing fengi þrjá mánuði til að gera breytingar á tillögunni áður en hún yrði aftur send í þjóðaratkvæðagreiðslu til samþykktar eða synjunnar. Umboðsmaður Alþingis skal gegna embætti dómsmálaráðherra hvað varðar framkvæmd kosninga til stjórnlagaþingsins og þjóðaratkvæðagreiðsluna.

Samþykki Alþingi frumvarpið getur þjóðin mögulega greitt atkvæði um nýja stjórnarskrá innan níu til ellefu mánaða.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×