Innlent

Sektaður fyrir að tálma lögreglumenn við störf

Karlmaður var í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag dæmdur í 30.000 króna sekt fyrir það sem kallað er að tálma lögreglumenn við störf. Maðurinn var handtekinn eftir að hann lét ófriðlega þegar lögregla stöðvaði ökumann sem grunaður var um að aka undir áhrifum áfengis.

Maðurinn var farþegi í bíl sem lögregla stöðvaði í nóvember árið 2007. Ökumaðurinn var grunaður um að aka undir áhrifum áfengis og hugðist lögregla handtaka ökumanninn og aka honum á lögreglustöð.

Þá hafi farþeginn gripið í hliðarhurð lögreglubifreiðarinnar og reynt að meina lögreglumanni að loka dyrunum. Hafi honum margsinnis verið skipað að færa sig en hann jafnan neitað sem endaði með því að lögreglumenn þurftu að ýta honum á brott.

Þegar því var lokið hafi hann aftur gengið í veg fyrir lögreglubifreiðina og var í kjölfarið handtekinn fyrir að hlýða ekki fyrirmælum lögreglu. Í lögregluskýrslu er þess getið að hann hafi verið mjög æstur.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×