Erlent

Fyrsta svínaflensudauðsfallið utan Ameríku staðfest

Fyrsta dauðsfallið vegna Svínaflensunnar utan Ameríku hefur verið staðfest en Jacqueline Fleming, 38 ára gömul kona, lést vegna flensunnar í gær.

Jacqueline hafði tveimur vikum áður fætt sitt þriðja barn og kom barnið í heiminn þremur mánuðum fyrir tímann.

Í yfirlýsingu frá fjölskyldu konunnar kemur fram að fjölskyldan sé gjörsamlega niðurbrotin en geri hvað hún getur til að styðja syni hennar tvo og sambýlismann hennar. Jacqueline, sem átti við undirliggjandi heilsuvandamál að stríða hafði ennfremur verið veik í nokkrar vikur vegna flensunnar en ekkert geti undirbúið fólk fyrir svona hræðilegar fréttir, segir meðal annars í yfirlýsingunni.

Talið er fullvíst að hið nýfædda barn sé ekki sýkt af Svínaflensunni.

Konan bjó í nágrenni Glasgow en skosk yfirvöld hafa ekki viljað tjá sig meira um málið af tillitssemi við aðstandendur Jacqueline.
















Fleiri fréttir

Sjá meira


×