Innlent

Seðlabankinn á dagskrá Alþingis en ekki í viðskiptanefnd

Álfheiður Ingadóttir, þingmaður VG, er formaður viðskiptanefndar Alþingis.
Álfheiður Ingadóttir, þingmaður VG, er formaður viðskiptanefndar Alþingis.

Þriðja og síðasta umræðan um seðlabankafrumvarpið á að fara fram á Alþingi í dag. Þrátt fyrir það er frumvarpið ekki á dagskrá fundar viðskiptanefndar sem hófst klukkan hálf níu. ,,Þetta mál er ekki á dagskrá viðskiptanefndar," segir Álfheiður Ingadóttir formaður nefndarinnar. Hún útilokar þó ekki að einhver nefndarmanna taki málið upp undir liðnum önnur mál.

Þingfundur hefst klukkan hálf tvö í dag. Dagskrá fundarins er með sama sniði og hún var í gær en þá var þingfundi slitið eftir að honum hafði verið frestað þrívegis.

Höskuldur Þórhallsson, þingmaður Framsóknarflokksins, kaus með tillögu sjálfstæðismanna í viðskiptanefnd í gær ólíkt flokksbróður sínum Birki Jóni Jónssyni. Samkvæmt tillögunni á frumvarpið að bíða í nefndinni uns nefnd á vegum Evrópusambandsins hefur sett fram tillögur um eftirlitsaðila á fjármálamarkaði.

Viðskiptanefnd fundar

Viðskiptanefnd kom saman klukkan hálf níu í morgun og er seðlabankafrumvarpið ekki á dagskrá. Á fundinum verða EES-reglur um hlutafélög og einkahlutafélög rædd sem og eftirlitsgjald fasteignasala.

,,Við höldum bara sérstakan fund um þetta mál þegar þar að kemur," segir Álfheiður. ,,Ég áskyldi mér í gær rétt til að boða til fundar með skömmum fyrirvara og sá áskilnaður stendur ennþá."







Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×