Erlent

Vítisenglar flytja í glæsiíbúðir á Jótlandi

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Jørn Jønke Nielsen ræðir við fjölmiðla.
Jørn Jønke Nielsen ræðir við fjölmiðla.

Æðstu menn Hells Angels í Danmörku eru fluttir í glæsiíbúðir í Randers á Austur-Jótlandi.

Þær eru blendnar, tilfinningar íbúa Golfhúsanna svokölluðu í Randers, þegar nýju nágrannana ber á góma. Það eru nefnilega engir aðrir en þeir félagar Jørn Jønke Nielsen og Brian Sandberg, einir hæst settu menn Vítisenglanna í Danmörku, sem eru mættir í hverfið.

Golfhúsin eru spánnýjar glæsiíbúðir sem hingað til hafa fyrst og fremst laðað til sín eldri borgara sem hyggja á ævikvöldið áhyggjulausa og þægilega golfiðkun. Þeir draumar virðast nú í uppnámi. Í viðtali við Berlingske Tidende segir íbúi, sem skiljanlega vill ekki láta nafns síns getið, að augljóst sé að nýir nágrannar séu mættir. Þetta sjáist á óvenjulegum fjölda manna með stór húðflúr sem aki um á stórum þýskum bílum.

Einnig virðist einhvers konar öryggisgæsla tekin til starfa en þar sé um að ræða sveitir manna á vélhjólum sem aki reglulegar eftirlitsferðir um hverfið. Þeir Nielsen og Sandberg eru sagðir ætla að draga sig í bili út úr óöldinni í Kaupmannahöfn þar sem styrjöld ríkir milli Vítisenglanna og innflytjendaklíka.

Lögreglustjóri á Austur-Jótlandi segir lögreglu þar nánast aldrei hafa séð þá félaga í umdæminu áður. Kannski eru þeir bara mættir í sveitina til að spila golf og safna kröftum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×