Innlent

Prófkjör Sjálfstæðisflokksins: Ólöf Nordal býður fram í nýju kjördæmi

Ólöf Nordal reynir fyrir sér í nýju kjördæmi.
Ólöf Nordal reynir fyrir sér í nýju kjördæmi.

Ólöf Nordal, sem er þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi þar sem eiginmaður hennar er forstjóri Alcoa, býður sig nú ekki fram í heimabyggð fjölskyldunnar, og ætlar að taka þátt í prófkjöri flokksins í Reykjavík. Vekur þetta athygli í ljósi þess að það er hefð fyrir því að bjóða sig fram í heimakjördæmum.

Jón Magnússon, fyrrverandi þingmaður Frjálslynda flokksins, er einn þeirra tuttugu og níu sem bjóða sig fram í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í næsta mánuði. Illugi Gunnarsson alþingismaður nýtur mests fylgis til að leiða flokkinn í Reykjavík samkvæmt könnun.

Jón Magnússon gekk nýverið úr þingflokki Frjálslynda flokksins en mikill ófriður hefur verið í kringum hann allt frá því hann gekk til liðs við flokkinn árið 2006.

Hann gekk til liðs við þingflokk Sjálfstæðismanna í síðustu viku en á árum áður var Jón flokksbundinn Sjálfstæðismaður og leiðtogi í ungliðahreyfingu flokksins.

Framboðsfrestur vegna prófkjörs flokksins í Reykjavík rann út í gær og höfðu þá 29 skráð sig til leiks, ellefu konur og átján karlar. Sex af níu núverandi þingmönnum flokksins í Reykjavík bjóða sig fram, en þau Geir H. Haarde, Björn Bjarnason og Guðfinna S. Bjarnadóttir eru ekki í endurkjöri.

Þá býður Gréta Ingþórsdóttir fyrrverandi aðstoðarmaður Geirs í forsætisráðuneytinu sig fram, en nú situr Ragnheiður E. Árnadóttir á þingi fyrir flokkinn í Suðvesturkjördæmi, sem einnig var aðstoðarmaður Geirs áður en hún fór á þing.

Einnig vekur athygli að Ingi Björn Albertsson býður sig fram í prókjörinu. Hann var fyrst kosinn á þingi fyrir Borgaraflokkinn sem faðir hans Albert Guðmundsson stofnaði á sínum tíma þegar hann klauf sig út úr flokknum eftir að hafa neyðst til að segja af sér sem fjármálaráðherra.

Ingi Björn sat á þingi frá 1987 til 1991 og hafði í millitíðinni klofið sig út úr Borgaraflokknum og stofnað þingflokk Frjálslynda hægriflokksins áður en hann endaði svo í þingflokki Sjálfstæðisflokksins, sem hann sat á þingi fyrir til 1995. Mun fleiri taka þátt í prófkjörinu nú en fyrir kosningarnar 2007, þá kepptu 19 manns um sæti á framboðslistum flokksins í Reykjavík en nú eru þeir 29 eins og áður sagði.

Illugi Gunnarsson er með afgerandi forystu í fyrsta sætið, samkvæmt könnun Capacents Gallup, sem Morgunblaðið greinir frá í dag. Samkvæmt henni vilja 32,8 prósent þeirra sem ætlað að kjósa flokkinn í kosningum Illuga í fyrsta sætið, en 16,9 prósent vilja Guðlaug Þór Þórðarson fyrrverandi heilbrigðisráðherra í leiðtogasætið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×