Innlent

Pörunin stangast á við lög um þingsköp

Siv Friðleifsdóttir
Siv Friðleifsdóttir

Útpörun Sivjar Friðleifsdóttur Framsóknarflokki í atkvæðagreiðslunni um Icesave-málið á Alþingi á þriðjudag hefur vakið athygli. Var útpörunin viðhöfð þar sem Helgi Hjörvar Samfylkingunni, nýkjörinn forseti Norðurlandaráðs, var ytra í embættiserindum.

Þessi aðferð, að para út þingmann í atkvæðagreiðslu þegar þingmaður úr andstæðri fylkingu er fjarverandi, snýst um að jafna út valdahlutföll milli stjórnarliða og stjórnarandstöðu. Hefur hún verið viðhöfð um árabil en farið nokkuð hljótt.

Gunnar Bragi Sveinsson, formaður þingflokks Framsóknarflokksins, segir að Samfylkingin hafi leitað til framsóknarmanna og í ljósi hefðarinnar hafi þeir brugðist vel við.

Í lögum um þingsköp segir að þingmanni sé skylt að vera viðstaddur og taka þátt í atkvæðagreiðslu nema hann hafi lögmæt forföll. Fjarvist Sivjar á þriðjudag er því, strangt til tekið, brot á þingsköpum.

Gunnar Bragi segir þetta vissulega rétt en bendir á að þessi háttur hafi verið viðhafður áratugum saman. Sé hann ekki fyrir hendi þurfi flokkar að kyrrsetja þingmenn sem annars sinntu mikilvægum erindum í útlöndum.- bþs

Helgi Hjörvar



Fleiri fréttir

Sjá meira


×